
Ætla að halda hvölunum rökum með dælum
Davið Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að fyrstu menn séu komnir á staðinn og von sé á bátum frá Reykjavík. Verkefnið sé að verða sér úti um dælur og einhver klæði til að halda dýrunum rökum þannig að þau geti komist út af sjálfsdáðum. „Menn ætla að reyna leggja sig fram við að reyna að bjarga hvölunum.“ Hann segir að björgunarsveitir séu ekki að fara draga dýrin út.
Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að lögreglan sé á vettvangi að reyna að bjarga einhverjum af dýrunum en þetta sé erfitt verkefni og ljóst að einhver dýranna muni deyja.
Víkurfréttir voru á staðnum fyrr í kvöld og birtu þetta myndskeið á Facebook síðu sinni. Hilmar Bragi Bárðarson, fréttamaður og ljósmyndari hjá Víkurfréttum, sagði í samtali við fréttastouf það fjari fljótt undan dýrunum. Heimamenn hafi verið komnir á undirfötin til að reyna koma dýrunum til bjargar.
Ekki er langt síðan fimmtíu grindhvalir strönduðu á Gömlu eyri á Löngufjórum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Myndirnar af hvölunum sem lágu dauðir í fjörunni vöktu mikla athygli . Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur, sagði þá í samtali við fréttastofu að fjölmargar ástæður gætu verið fyrir því að hvalir villist in á háskaleg svæði. Grindhvalir væru hópdýr með sterk félagslegstengsl sem yfirgæfu félaga sína ekki svo glatt.