Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætla að fjölga íbúum í stað þess að sameinast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bolungarvík stefnir að því að fjölga íbúðum til þess að ná lágmarksíbúafjölda, í stað í þess að sameinast öðrum sveitarfélögum. Sveitarstjórnarráðherra ætlar að leggja til að lögbundinn lágmarksíbúafjöldi verði þúsund árið 2026. Í Bolungarvík búa nú um 950 manns.

Bæjarráð Bolungarvíkur vill fara þessa leið í stað þess að vera „þvingað“ til sameiningar við önnur sveitarfélög. „Bæjarráð hafnar hugmyndum um þvingaða sameiningu sveitarfélaga. Bolungarvík er drífandi og sjálfbært samfélag og á því verður engin breyting með eða án sameiningar,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur.

Bæjarráð Bolungarvíkur lét bóka á fundi sínum í gær aðgerðaráætlun með yfirskriftinni Bolungarvík 1000+. Áætlunin er sett fram í því skyni að fjölga bæjarbúum svo forðast megi þvingaða sameiningu við önnur sveitarfélög.

„Íbúatala Bolungarvíkur hefur verið í kringum 950 undanfarið ár eða svo. Það vantar því um 50 íbúa til að ná þessu þúsund íbúa marki um að fá að velja sjálf hvort við viljum sameinast öðru sveitarfélagi eða ekki.“ Bókunin segir að eina markmið framtaksins sé að ná þúsund íbúa takmarkinu áður en boðuð lög ráðherra taka gildi.

Þrjár meginstoðir

Í aðgerðunum er kveðið á um þrjár meginstoðir. Ein þeirra er fjölgun íbúðarhúsnæðis. Tekið er fram að íbúðamarkaður Bolungarvíkur er að mestu fullsetinn, fjölgun íbúða er því ein af grunnforsendum íbúafjölgunar í sveitarfélaginu. Einnig er kveðið á um uppbyggingu innviða með nýjum leikskóla og stuðning við nýsköpun og stofnun nýrra fyrirtækja.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur boðað átak í málefnum sveitarfélaga og tekur á því í þingsályktunartillögu sem hann leggur fyrir þing í haust. Þar er meðal annars stefnt að breyttum lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Sameiningar sveitarfélaga er sú leið sem búist er við að sé almennt farin til að komast til móts við tillögur ráðherra. Að öllu óbreyttu verður það til þess að sveitarfélögum fækkar um allt að 40 á næstu sjö árum.

Bolungarvík er ein nokkurra sveitarfélaga á landinu sem er á mörkum þess að ná þúsund manna íbúatali. Vesturbyggð, Þingeyjarsveit og Blönduós eru einnig um eða yfir 900 íbúum. Þá er mikill fjöldi sveitarfélaga með færri íbúa. 39 sveitarfélög af 72, eða um 54,1% eru með færri en þúsund íbúa. Þá eru sjö sveitarfélög með færri en hundrað íbúa.