Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætla að fjarlægja jarðneskar leifar Francos

30.07.2018 - 09:13
Erlent · Spánn
I CULT FRANCISCO FRANCO  DEL LIBRO A GOLPE DE SABLE DE GABRIEL CARDONA
 Mynd: Wikimedia Commons
Ríkisstjórn Spánar ætlar að fjarlægja jarðneskar leifar Francisco Francos úr grafhýsi hans í sumar, þar sem þær hafa hvílt í 43 ár. Fjölskylda Francos berst gegn ákvörðuninni.

Francisco Franco, fyrrverandi einræðisherra Spánar lést árið 1975, eftir að hafa ríkt á Spáni í 36 ár, frá lokum borgarastyrjaldarinnar árið 1939. 

Franco var lagður til hinstu hvílu í Dal hinna föllnu, sem er norðan við Madrid. Þar hvíla 30.000 manns sem féllu í borgarastríðinu, liðsmenn beggja fylkinga. Dal hinna föllnu var frá upphafi ætlað að vera minnismerki og staður þar sem Spánverjar gætu fundið frið og sátt. Margir andstæðinga Francos segja það ekki hægt svo lengi sem einræðisherrann hvíli þar í merktri gröf. Þar eru aðeins tvær merktar grafir, þær Francos og svo Primos de Rivera, stofnanda spænska Falangistaflokksins.

Meirihluti spænska þingsins samþykkti í fyrra að flytja líkamsleifar Francos. Ný ríkisstjórn sósíaldemókrata hefur nú ákveðið að láta af því verða í sumar. Fjölskylda Francos hefur brugðist hart við og segist í engu ætla að vera samstarfsfús. Barnabarn einræðisherrans og nafni segir ákvörðun forsætisráðherrans vera lýðskrum. Henni sé ætlað að lokka vinstrisinnaða kjósendur til fylgis við jafnaðarmenn í kosningum sem forsætisráðherrann, Pedró Sánchez, lofaði að yrðu haldnar fljótlega þegar hann tók við völdum fyrr í sumar.

Sánchez sjálfur segir að Spánverjar þurfi minnismerki sem geti sameinað þá en ekki sundrað og annar talsmaður ríkisstjórnarinnar hefur bent á að hvergi í Evrópu séu minnismerki um fallna einræðisherra, ekki í Þýskalandi og ekki á Ítaíu.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV