Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla að endurvinna allan heimilisúrgang

26.07.2019 - 09:54
Mynd:  / 
Hætt verður að urða heimilissorp þegar ný gas- og jarðgerðarstöð Sorpu verður tekin í notkun snemma á næsta ári. Stöðin markar tímamót í sögu úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Yfirverkfræðingur hjá Sorpu segir að stefnt verði að því að endurvinna allt heimilissorp sem fellur til á höfuðborgarsvæðinu.

Bjarni Gnýr Hjarðar, yfirverkfræðingur hjá Sorpu, var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir nýju stöðina vera algera byltingu og ánægjulegt skref. „Úrgangur sem er núna í gráu tunnunni má kalla restarúrgang. Innihaldið í gráu tunnunni á að fara í þessa stöð og í vinnsluferli sem flokkar það niður í viðeigandi strauma í vélum,“ segir Bjarni.

„Það sem er lífrænt, eins og matarleifarnar eða jafnvel bleyjurnar, fer inn í gas- og jarðgerðarstöðina. Út úr henni kemur metan, til dæmis á strætisvagna eða einkabílinn, og molta eða jarðvegsbætir til að græða upp landið.“ Markmiðið er að breyta því plasti sem verður afgangs í dísilolíu og þannig verður allt í gráu tunnunni endurunnið. 

Sveitarfélögin ákváðu árið 2010 að allri urðun yrði hætt árið 2020. „Við erum komnir vel á veg með að byggja stöðina og vonandi getum við byrjað á þessu í febrúar á næsta ári,“ segir Bjarni. Til að byrja með verður ekkert heimilissorp urðað en rekstraraðilar fyrirtækja eru ekki komnir jafnlangt. Það sé eilítið flóknara ferli og til dæmis sé erfitt að efnisendurvinna mikið af efni sem fellur til í byggingariðnaðinum. 

Sorpmagn hefur aukist

Stækka þarf stöðina í Gufunesi en þangað koma um 30.000 tonn af sorpi á ári. „Við fáum um 600 tonn á dag til að meðhöndla, það eru eins og 30 stórir gámar. Í móttökustöðinni í Gufunesi ætlum við að taka betur á móti úrganginum og forvinna hann þar. Málmarnir fara strax í endurvinnslu og annað efni, til dæmis hluti af plastinu, getur farið beint í endurvinnslu í stað þess að fara á nýju stöðina og vera unnið þar og sent til baka,“ segir Bjarni. 

Sorpmagn hefur aukist frá árinu 2014 um það sem nemur 60 prósentum en Bjarni segir að heimilin standi sig vel í endurvinnslu. Aukningin sé aðallega hjá rekstraraðilum. „Rekstraraðilar, aukningin er þar. Í hruninu minnkaði sorpmagnið, meðal annars vegna þess að byggingariðnaður stöðvaðist. Aukningin skýrist meðal annars að miklu leyti vegna byggingarframkvæmda,“ segir Bjarni og bendir á að sorpið tengist efnahagssveiflum. „Ef við lítum á magnið í tunnunni sjáum við hvernig efnahagsástandið er.“

Geta framleitt metangas fyrir 4000 einkabíla

Í nýju stöðinni verður framleitt metangas og býst Bjarni við að Sorpa geti tvöfaldað framleiðslu sína. „Ef við ætlum að búa til græna orku er besta leiðin að nota úrgang. Metan er jarðgas og Sorpa getur tvöfaldað sína framleiðslu. Við getum sinnt um 50 strætisvögnum eða 4000 einkabílum. Auðvitað viljum við sjá meiri notkun á þessu eldsneyti,“ og segir að skilvirkasta leiðin til að nýta þessa grænu orku í almenningssamgöngum. 

„Við eigum ekkert jarðgasdreifikerfi, það er ein pípa sem liggur frá Álfsnesi til Bíldshöfða. Þaðan  að strætó er frekar stutt leið upp í Hálsahverfi þar sem strætisvagnar hafa sína miðstöð. Langskilvirkasta leiðin til að koma þessari grænu orku til samgangna á landi væri að leggja stutta lögn frá Bíldshöfða upp á og nýta þannig alla orkuna nánast á einum stað.“

Hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér að ofan.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV