Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætla að byggja leigumarkað upp á Akranesi

Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Uppbygging og aðgerðir eru fyrirhugaðar á Akranesi til þess að koma þar á virkum leigumarkaði að nýju eftir að Heimavellir hf. seldu þar sextíu leiguíbúðir á einu ári. 26 fjölskyldur fengu kynningu á þeim úrræðum sem standa til boða á íbúafundi í gær.

Heimavellir hf. seldu 26 íbúðir í tveimur húsum á Akranesi um miðjan janúar og neyðast margir leigjendur til að flytja á allra næstu vikum. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir útlitið skárra en fyrir stuttu þó að ekki takist að grípa allar fjölskyldurnar.

Samið var við eigendur íbúða á Akranesi um að bjóða eignir sínar til leigu.

„Hugsanlega er leigan sem við erum að bjóða núna eitthvað hærri. en okkur tókst að safna saman allt að sextán íbúðum á mjög skömmum tíma með því að hafa samband við marga aðila,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir spurningar fundargesta hafa verið fjölmargar.

„Að sjálfsögðu er fólk náttúrulega óttaslegið um sína framtíð, en ég vona að þetta hafi slegið að einhverju leiti á áhyggjur fólks,“ segir hann.

Heimavellir áttu 74 leiguíbúðir á Akranesi fyrir ári en hafa selt bróðurpart þeirra og eiga þar einungis tíu íbúðir í dag. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, segir það töluvert inngrip í leigumarkað bæjarins og mikilvægt sé að bregðast hratt við. Sveitarfélagið stefni því að uppbyggingu ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og leigufélaginu Bríeti. Eitthvað er þó í að aðgerðirnar gangi í gegn.

„það mun auðvitað taka einhvern tíma að klára undirbúning þessara aðgerða og sömuleiðis að hefja uppbyggingu og klára það. Þannig ég myndi segja að þetta geti tekið 15 mánuði og upp í 24 mánuði að klára þannig að þetta verði komið á,“ segir Sævar.