Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Æðstu stjórnendum boðin betri kjör

16.10.2019 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Tólf aðstoðar- og yfirlögregluþjónum hjá embætti ríkislögreglustjóra hefur verið boðinn samningur sem tryggir þeim betri kjör. Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóri á Vesturlandi, gerir alvarlegar athugasemdir við samkomulagið. Samkvæmt bréfi sem Úlfar sendi dómsmálaráðuneytinu, verða aðstoðar- og yfirlögregluþjónarnir með hærri laun en 7 af 9 lögreglustjórum landsins, verði samkomulagið að veruleika. Þá hækka lífeyrisgreiðslur þeirra sem greiða í B-deild LSR.

Með samkomulaginu færast 50 yfirvinnustundir inn í föst mánaðarlaun starfsmannanna, og með því aukast lífeyrisréttindi þeirra sem greiða iðgjöld í B-deild LSR. Fréttastofu er ekki kunnugt um hversu margir hafi þekkst þetta boð.

Ekki hægt að fara hærra

Úlfar sendi Hauki Guðmundssyni, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, bréfið 7. október. Afrit af bréfinu var sent til allra lögreglustjóra á landinu.

Í bréfinu, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að með samkomulaginu sé öllu snúið á hvolf við launasetningu lögreglumanna. Sá yfirlögregluþjónn sem þiggi boðið færist í launaflokk 30-8, en ekki sé hægt að raða lögreglumönnum hærra samkvæmt gildandi launatöflu. Í bréfinu segir að mánaðarlaun yfirlögregluþjóna hjá embættinu verði 1.022.195 krónur á mánuði eftir breytinguna. Þetta þýði að 7 af 9 lögreglustjórum landsins verði þá á lægri mánaðarlaunum en yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra sem þiggur boðið. Í bréfinu kemur fram að hjá embætti ríkislögreglustjóra vinni 9 aðstoðaryfirlögregluþjónar og 3 yfirlögregluþjónar.

„Hér blasir við að tryggja á betri lífeyrisréttindi aðstoðar- og yfirlögregluþjóna sem greiða iðgjöld í B-deild LSR og eiga þess kost að fara á eftirmannsreglu í beinu framhaldi af starfi,“ segir í bréfi Úlfars.

A-deild LSR var stofnuð árið 1997 og um leið var eldra kerfinu, B-deildinni, lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Munurinn á A- og B-deildinni er meðal annars sá að greiðslur sjóðfélaga í B-deild reiknast út frá föstum launum fyrir dagvinnu, en ekki fyrir yfirvinnu. Greiðslur sjóðfélaga í A-deildinni reiknast hins vegar einnig út frá yfirvinnu.

A-deildarmenn ósáttir

Í bréfi Úlfars segir meðal annars að breytingin geti skipt miklu fyrir aðstoðar- og yfirlögregluþjóna sem greiða í B-deildina. Breytingin hafi hugsanlega áhrif á réttindi þeirra sem þegar eru komnir á eftirlaun hjá viðkomandi stofnun. „Breyting hefur þannig áhrif út fyrir gröf og dauða,“ segir Úlfar í bréfinu til ráðuneytisins.

Þá segir hann að þeir sem greiði í A-deild LSR verði ósáttir, enda séu iðgjöld þeirra yfir langt tímabil mun hærri en þeirra sem greiða í B-deildina, enda greiði þeir í A-deildinni iðgjald af heildarlaunum, en ekki af mánaðarlaunum, eins og þeir sem greiða í B-deildina.

Úlfar telur að tímasetning þessara breytinga sé skrýtin í ljósi þess að kjarasamningar séu lausir, auk þess sem breytingin eigi sér stað á óvissutímum hjá ríkislögreglustjóra. Þar vísar Úlfar til þess að gustað hefur um Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra, að undanförnu. Átta af níu lögreglustjórum á landinu lýstu því yfir í lok september, að þeir bæru ekki traust til Haraldar. Landssamband lögreglumanna og nokkur félög innan þess hafa einnig opinberað óánægju með þætti í rekstri embættisins, meðal annars í fata- og bílamálum. Ákveðið hefur verið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra eftir að athugasemdir voru gerðar við rekstur hennar og ríkisendurskoðun ætlar að gera stjórnsýsluúttekt á embættinu.

Frumkvæðið frá Félagi yfirlögregluþjóna

Í bréfi sínu til ráðuneytisins vísar Úlfar í texta sem hann segir úr samkomulaginu. Þar segir að samkomulagið sé í samræmi við stofnanasamning embættisins og Landssambands lögreglumanna og að höfðu samráði við Fjársýslu ríkisins.

Í bréfi Úlfars segir að ekkert samráð hafi verið haft við lögreglustjóra vegna þessa máls, en aðstoðar- og yfirlögregluþjónar hafi notið sambærilegra kjara á landsvísu. Úlfar tekur fram í bréfinu að samkvæmt upplýsingum hans hafi þegar verið gengið frá samningum við einhverja starfsmenn ríkislögreglustjóra, en hann hafi ekki upplýsingar um fjölda þeirra.

Úlfar segist í lok bréfsins telja ástæðu til þess að dómsmálaráðuneytið fari yfir málið og upplýsi jafnframt fjármálaráðuneytið um það.

Fréttastofa óskaði upplýsinga um málið hjá embætti ríkislögreglustjóra. Thelma Cl. Þórðardóttir, yfirlögfræðingur hjá embættinu, segir í skriflegu svari til fréttastofu, að samningurinn hafi verið gerður við skipaða yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti ríkislögreglustjóra 26. ágúst. „Frumkvæðið að samningnum kemur frá formanni Félags yfirlögregluþjóna í aprílmánuði á grundvelli stofnanasamnings embættisins við Landssamband lögreglumanna frá janúar 2018,” segir í svari Thelmu. Þeir sem kjósi að standa utan samningsins njóti áfram óbreyttra kjara. Thelma svarar ekki þeirri spurningu fréttastofu, hversu margir hafi skrifað undir samninginn.