Áður óheyrð söngupptaka af Söknuði Vilhjálms

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson
 Mynd: RÚV

Áður óheyrð söngupptaka af Söknuði Vilhjálms

31.08.2019 - 11:00

Höfundar

Í heimildavinnu sinni fyrir ritun ævisögu Vilhjálms Vilhjálmssonar söngvara fyrir fáeinum árum fann Jón Ólafsson tónlistarmaður áður óheyrða söngupptöku af hans þekktasta lagi, Söknuði. Upptakan hefur ekki ratað í eyru almennings til þessa en á sunnudaginn ætlar Jón að spila lagið á Rás 2.

Tónlistar- og fjölmiðlamaðurinn Jón Ólafsson heldur úti vinsælum þætti á Rás 2 á sunnudagsmorgnum sem heitir einfaldlega Sunnudagsmorgunn með Jóni Ólafs. Jón hefur fengið góðfúslegt leyfi rétthafa og aðstandenda til að leika á sunnudaginn næsta, dýrmætan hljóðbút úr upptökum Vilhjálms Vilhjálmssonar, þessa ástsælasta söngvara þjóðarinnar, fyrir hljómplötuna Hana-nú sem kom út 1977. Þetta er söngupptaka á laginu Söknuði, sem á endanum var þó ekki valin á plötuna. Þetta er því útgáfa lagsins eins og það hefði getað hljómað. 

Vilhjálmur Vilhjálmsson er tvímælalaust einn dáðasti tónlistarmaður íslenskrar tónlistarsögu og hefði hann fagnað 75 ára afmæli í apríl á næsta ári. Vilhjálmur kvaddi því miður allt of snemma. Hann lést í bílslysi í Lúxemborg um páskana 1978. Þá var hann aðeins þrjátíu og tveggja ára. Fjölmörg laga í flutningi Vilhjálms lifa enn í minningunni hátt í fimmtíu árum eftir að þau komu út, lög eins og Lítill drengur, Við eigum samleið og Bíddu pabbi svo að örfá séu nefnd. Íslensku þjóðinni fannst sem hún hefði misst nákominn ættinga við fráfall Vilhjálms á sínum tíma. 

Mynd með færslu
 Mynd: Alda Music - RÚV
Lagið Söknuður kom út á plötunni Hana nú árið 1977.

„Vilhjálmur samdi þennan texta í Lúxemborg nokkrum árum fyrr og Jóhann Helgason gerði síðan lag við textann, að ósk söngvarans þegar hann var að safna efni í Hana-nú. Flest lög plötunnar voru samin við texta Vilhjálms sem hann átti fyrir en þó ekki öll,“ segir Jón Ólafsson um lagið Söknuð sem hefur verið talsvert í umræðunni vegna meints hugverkastuldar. Söngupptakan sem Jón komst yfir á sínum tíma hefur aldrei heyrst áður en hefur þó verið varðveitt í þessi 42 ár frá því hún var tekin upp. „Hún var einfaldlega á einni rás fjölrása segulbandsspólunnar eins og gengur og gerist. Vilhjálmi og verkstjóranum, Magnúsi Kjartanssyni, hefur væntanlega þótt hin útgáfan betri á einhvern hátt og valið hana á plötuna. Söngtakan sem ég ætla að spila er með öðrum blæbrigðum og núönsum og verulega áhugaverð. Alla vega fyrir svona nörd um íslenska tónlist eins og ég er,“ segir Jón um upptökuna.

Jón segir að þetta uppátæki sé vissulega skemmtilegt fyrir unnendur íslenskrar tónlistar jafnt sem aðdáendur Vilhjálms en áréttar að upptökuna þurfi hann að fjarlægja skömmu síðar. Hún verður því ekki aðgengileg eftir á. Jón hefur lengi verið mikill aðdáandi Vilhjálms og reit ævisögu söngvarans árið 2009. Bókin ber einmitt heiti téðs lags, Söknuður. Hvort rétta söngupptakan af Söknuði var valin á sínum tíma er Jón ekki endilega viss um. „Mér finnst það vera smekksatriði. Þessi upptaka er ekki síðri að mínu áliti en ólík hinni,“ segir Jón.

Þátturinn Sunnudagsmorgunn með Jóni Ólafs er á dagskrá Rásar 2 alla sunnudagsmorgna kl. 10.05.