Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum

Mynd með færslu
Kristján Þór Júlíusson og Svandís Svavarsdóttir Mynd: Stjórnarráð Íslands
Sjóður sem fjármagnar verkefni í baráttu gegn sýklalyfjaónæmi var stofnaður í vikunni. 30 milljónir renna í sjóðinn í ár. Fjármagn er tryggt næstu þrjú árin. Ráðherra segir sjóðinn mikilvægan áfanga í að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi.

Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður var stofnaður í vikunni. Hann mun meðal annars styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, auk þess að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri. Þá mun hann greiða umframkostnað vegna rannsókna í almannaþágu í því skyni að rekja uppruna sýkla þegar hópsýkingar eða faraldrar koma upp. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Efla matvælaöryggi og tryggja vernd búfjárstofna

Í kjölfar þess að innflutningur á hráu kjöti var leyfður var sett fram aðgerðaáætlun til að efla matvælaöryggi og tryggja vernd búfjárstofna. Aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería voru á áætluninni og sjóðurinn stofnaður í samræmi við það.

Fjármögnun tryggð næstu þrjá árin

Í sjóðnum eru 30 milljónir fyrir árið 2020, sem koma með jöfnum framlögum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Fjármögnun sjóðsins er tryggð næstu þrjú árin.

Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Hingað til hefur sýklalyfjaónæmi á Íslandi verið talsvert minna vandamál en í nágrannaríkjunum. 

Ísland í fararbroddi

„Þessi sjóður er mikilvægur áfangi í átaki okkar heilbrigðisráðherra um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Það sem gerir þetta kleift er það góða starf sem unnið hefur verið á síðustu misserum og hefur verið leitt af okkar fremstu sérfræðingum á þessu sviði. Á sama tíma er stofnun þessa sjóðs stórt skref í þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra undirrituðu úthlutunarreglur sjóðsins á þriðjudaginn.