Aðgerðir boðaðar til að verja frumbyggja

20.03.2020 - 10:35
epa08308341 Australian Prime Minister Scott Morrison speaks to the media during a press conference regarding coronavirus and COVID-19 at Parliament House in Canberra, Australia, 20 March 2020. Australia has recorded at least seven coronavirus and COVID-19 related deaths.  EPA-EFE/LUKAS COCH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Mynd: EPA-EFE - AAP
Stjórnvöld í Ástralíu hafa gripið til ráðstafana til að verja samfélög frumbyggja vegna COVID-19 kórónaveirufaraldursins. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, greindi frá þessu í morgun og sagði að meðal annars yrðu ferðir inn á svæði frumbyggja takmarkaðar verulega.

Heilbrigðisyfirvöld segja að kórónaveiran kunni að bitna hart á frumbyggjum sem margir búi við mikla fátækt og illan aðbúnað. Þá séu sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómar algengir meðal frumbyggja.

Forystumenn frumbyggja höfðu sjálfir boðað ýmsar aðgerðir til að draga úr hættunni af völdum kórónaveirunnar og meðal annars hvatt til að fólk héldu kyrru fyrir á heimaslóðum.

Fréttastofan AFP segir rannsóknir gefa til kynna að frumbyggjar í Ástralíu hafi farið verr út úr svínaflensunni árið 2009 en aðrir landsmenn. Nærri 900 manns hafa greinst með COVID-19 kórónaveiruna í Ástralíu.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV