Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aðgæsluleysi við stjórnun þegar Særún strandaði

18.12.2019 - 09:26
Mynd með færslu
Frá vettvangi björgunaraðgerða í dag. Myndin er tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að ástæða þess að farþegaskipið Særún strandaði á skeri í Breiðafirði í apríl síðastliðnum hafi verið aðgæsluleysi við stjórnun skipsins. Mikill viðbúnaður var vegna strandsins og var þyrla Landhelgisgæslunnar ræst út og björgunarsveitir frá Stykkishólmi og Rifi fóru á vettvang.

Þrír farþegar voru um borð í skipinu þegar það strandaði. Þeim voru fluttir yfir í línubát sem flutti þá til Stykkishólms en áhöfnin varð eftir um borð. Skipið losnaði af strandstað fjórum tímum seinna og var siglt undir eigin vélarafli til Stykkishólms þar sem það var tekið í slipp. Þar kom í ljós að tveggja metra rifa hafði myndast í þurrými stjórnborðsmeginn.

Við rannsókn nefndarinnar kom fram að skipstjórinn, sem var einn í brúnni, taldi sig þekkja svæðið mjög vel. Hann vissu af þessu grunni sem skipið strandaði á en það kemur ekki upp á stórstraumsfjöru. Hann taldi að ástæður strandsins væru „mannleg mistök.“

Skipstjórinn sagði enn fremur að hann hefði haft sólina í augun sem hefði blindað hann auk þess sem hann taldi sig hafa kveikt á sjálfstýringunni.  Hann hefði haldið að hann væri að beygja til bakborða en í stað þess hefði skipið siglt beint áfram. 

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að aðstæður hefðu verið góðar, logn og sléttur sjór. Skipstjórinn taldi því enga hættu á ferðum og hann ákvað að bíða eftir flóði í stað þess að reyna að losa skipið.  Umhverfisstofnun sagði að ekki hefði orðið „teljandi olíumengun“ þótt olía hefði lekið úr skipinu eftir að það losnaði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV