Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðeins 25% ADHD-fólks fær aðstoð

17.11.2019 - 12:40
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Aðeins um fjórðungur þeirra sem eru með athyglisbrest og ofvirkni fá aðstoð, segir geðlæknir. ADHD sé algengt vandamál um allan heim en mikill fjöldi greininga hér á landi megi rekja til áhuga geðlækna á málefninu. Þeir sem eru með athyglisbrest og ofvirkni glíma við það alla ævi, segir geðlæknir. Krakkar séu óþekkir og gangi illa í skóla en miðaldra fólk glími við áfallastreitu og kulnun. 

Haraldur Erlendsson geðlæknir fjallaði um ADHD á fræðslufundi fyrir almenning á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í gær. Um tólf þúsund manns hér á landi hafa verið greindir með ADHD.

En hvers vegna greinast svo margir hér og svo margir á fullorðinsaldri?

„Nýlegustu rannsóknir sýna að þetta er algengt vandamál um allan heim. Af hverju greinist það betur á Íslandi? Það hefur náttúrulega verið umræða og starfandi geðlæknar undanfarna tvo áratugi sem hafa sýnt þessu áhuga.  Það er mikil þörf á að sinna þessum hópi. Þetta er hópur sem er mjög kostnaðarsamur fyrir heildina en líður fyrir marga erfiðleika. En við erum fyrst og fremst að tala um það hvort þjónustan sé fyrir hendi eða ekki,“ segir Haraldur.

Og er hún það?  

„Alls ekki nóg. Hún sinnir ekki nema brotabroti. Kannski erum við að sinna fjórðung af hópnum,“ segir Haraldur.

Hvaða áhrif hefur það að við sinnum svona fáum?

„Þetta hefur áhrif á okkur á öllum aldri. Ungabörnin sofa ekki, eru óvær. Krakkarnir eru óþekkir í skólanum og læra ekki. Þeim fer ekki fram. Unglingarnir lenda í vitleysu, eiga erfitt með sambönd. Lenda líka í einelti vegna samskiptaerfiðleika. Lenda í rugli, lenda í glæpum og ofbeldi. Lenda í áföllum. Fólk um tvítugt lendir kannski í skilnaði, klárar ekki nám. Lendir í veikindum. Skiptir um vinnu, helst hvergi í vinnu. Miðaldra fólkið fer í kulnun og fær áfallastreitu og svo koll af kolli. Þetta er á öllum aldri sem veldur verulegum vanda,“ segir Haraldur. 

Haraldur flutti erindi um ADHD á fræðslufundi á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

En hvað er hægt að gera? Það er ákveðin andúð í samfélaginu gagnvart lyfjum eins og Rítalíni?

„Já og það er ekki alveg að ósekju. Það er bæði hluti fólks sem er með ADHD og aðrir í þjóðfélaginu sem er að misnota lyf. Svo eru þetta mjög dýr lyf. Lyfjaiðnaðurinn er að græða feikn á þessum lyfjum sem í raun og veru kosta ekki neitt,“ segir Haraldur.

En eru lyfin nauðsynleg fyrir þá sem eru með ADHD?

„Já, bæði fyrir fullorðna og börn. Meirihluti fólks með ADHD byrjar ekki að læra af mistökum sínum fyrr en hann er kominn í lyfjameðferð. Lyfjameðferð er alls ekki aðalmeðferðin en hún er hornsteinninn. Fólk með ADHD á mjög erfitt með að tengja saman huga og hjarta, hugsanir og tilfinningar, er oft með sterkan huga og skilur hlutina fljótt en á erfitt með að höndla tilfinningar og læra þess vegna af mistökum og breyta hegðun sinni,“ segir Haraldur. 

En er það ekki þannig að hér er þetta ofgreint, að það séu of margir greindir með ADHD sem eru bara ekki með það?

„Það segja sumir. Það fer eftir því hvern þú spyrð. Ef þú spyrð mig, þá vantar langt upp á. Ég held að það séu um 12.000 manns greindir á Íslandi. Auðvitað er ekki til hugtakið normal. Hvar ætlarðu að setja mörkin. Ef þú ætlar að tala um fólk sem fer ekki í vinnu, þá erum við örugglega ekki búin að greina alla. Ef þú ætlar að tala um fólk sem á erfitt með vinnu, þá erum við örugglega ekki búin að greina alla. Ef við erum að tala um fólk sem er ekki hamingjusamt og er ekki að njóta lífsins, þá eigum við langt í land. Auðvitað skiptir þetta mestu máli, sérstaklega á unglingsárum og þegar menn eru að klára nám. Þegar fólk er komið í rútínu þá er þetta oft minna mál,“ segir Haraldur.

Þá sýni rannsóknir að einkennum fækki oft með aldrinum en hins vegar minnki vandi fólks ekki þótt það nái ekki greiningarmörkum hvað varðar fjölda einkenna.

„Við erum óþekktarormar úr allri Evrópu“

En eru Íslendingar þá bara meira ADHD en aðrar þjóðir?

„Við ásamt Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum erum alla vega hæst í að greina og meðhöndla þetta. Við erum mjög svipuð, Íslendingar hafa m.a.s. komist upp fyrir þá stundum. Við eigum það kannski svolítið sameiginlegt með þessum þjóðum að við erum landflutningafólk. Við erum óþekktarormar úr allri Evrópu sem flýja til Íslands af því að þeir eru svo óþekkir að þeir láta engan stjórna sér. Þannig að kannski er orðið eitthvert úrval af sérstaklega duglegu og sjálfstæðu fólki,“ segir Haraldur.