Ádeila á stöðu konunnar í stríði

Mynd: MAK / RÚV

Ádeila á stöðu konunnar í stríði

24.05.2019 - 16:59

Höfundar

Mutter Courage eftir Bertolt Brecht er talið með bestu leikverkum tuttugustu aldarinnar og eitt kröftugasta stríðsádeiluverk sögunnar. Verkið er útskriftarverkefni leikarabrautar sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands og fjallar María Kristjánsdóttir leiklistarrýnir um sýninguna.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Það er gleðilegt að þýska skáldið Bertolt Brecht (1898-1956) sé að koma aftur inn úr kuldanum. Þessi mikli áhrifavaldur í nútíma evrópsku leikhúsi . En varla sést sú sýning á fjölunum þar sem ekki eru notaðar einhverjar þær nýjungar  í leikhúsvinnu sem hann var frumkvöðull að. Við fall múrsins tókst nýfrjálshyggjunni og fylgissveinum hennar einkar vel upp við að að gera Brecht ekki húsum hæfan.  Ástæðan var auðvitað sú að Brecht varð snemma á ferlinum marxisti og leit á marxismann sem aðferð í leikhúsi til að greina veruleikann og reyna að afhjúpa þau lögmál sem drífa kapitalískt samfélag áfram og skapa þekkingu á þeim. Líkt og Hatari-hópurinn vildi hann losa okkur við kapitalismann.
 
Verkið „Mutter Courage og börnin hennar“, með undirtitlinum króníka úr Þrjátíu ára stríðinu, skrifaði Brecht árin 1938 til 1939 þá landflótta í Svíþjóð ‒ á flótta undan nazistum. Og það voru útskriftarnemar sviðslistabrautar LHÍ  í samstarfi við LA og Þjóðleikhúsið sem sýndu höfuðborgarbúum það fjórum sinnum  um síðastliðna helgi og var uppselt á allar sýningar. Þar segir frá kaupkonu sem gengur undir nafninu Mutter Courage, eða Mamma hugrakka og ferðast lengi með söluvagn sinn milli vígstöðva 30 ára stríðsins, úr einu landi í annað. Löngun hennar til að græða á stríðinu verður til þess að hún missir öll börn sín þrjú á ferðalaginu. Sýnt skyldi þar fram á að aðeins þeir voldugu græða á styrjöldum ekki litli Jón eða litla Gunna. Leikritið er brotið upp í sjálfstæðar myndir, atburðir sýndir stakir og þeir framandgerðir með því að setja fyrirsagnir á atriðin um hvar við erum stödd á ferðinni, hvers sé þar að vænta, söngvum oft sjálfstæðum er skeytt inn í verkið og á allan hátt er hin epíska frásögn undirstrikuð. Verkið var sviðsett af Erich Engel og Brecht sjálfum árið 1949 í Austur-Berlín og fór mikla sigurför til Parísar og Lundúna árin 1954 og 1955 og eftir það var evrópskt leikhús ekki samt. Heilmiklar heimildir eru til um þessa sýningu, ætlanir Brechts og hugmyndir, leikstjórn hans á ýmsum atriðum og túlkun leikara, sem og myndir og teikningar. Einnig kvikmynd.
 
Marta Nordal, leikstjórinn, er ekki marxisti og sennilega varla nokkur útskriftarnemandanna, því er tómt mál að tala um að ætlast til þess að í sýningunni sé gerð tilraun til að lyfta fram díalektískri hugsun leikhúsmannsins. Auk þess sem leikstjórinn hefur í upphafi átt við margvíslegan annan vanda að stríða. Eða hvernig á að lýsa ferðalaginu langa með vagninn á þröngu sviði, engu hringsviði? Hvernig fjöldasenum? Og hvernig eiga allar stúlkurnar í hópnum að njóta sín þegar kvenhlutverk eru aðeins þrjú, en að vísu ákaflega bitastæð, eins og jafnan hjá Brecht.  Megintilgangur þessarar sýningar hlýtur nefnilega fyrst og fremst að vera sá að leyfa útskriftarnemendunum að njóta sín, sýna hvað þau hafa lært, hvar hæfileikar þeirra liggja.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið - RÚV
Úr sviðsetningu leikarabrautar sviðslistadeildar LHÍ á Mutter Courage eftir Berthold Brecht.

Í anda Brechts þá undirstrikar Marta sannarlega vægi leikhópsins og epíska þáttinn. Það er leikhópurinn sem er að segja söguna (sem lýsir sér til dæmis þegar kór þeirra flytur fyrirsagnir nokkurra atriða). Allt sem hann þarf til þess að styðja söguna er inni á þröngu sviðinu, hljóðfæri, græjur, ýmis leiktjöld, búningar til skiptanna, leikmunir og jafnvel handstýra leikarar ljóskösturum í sumum atriðum. Það orkar því líka fullkomlega eðlilega að menn leiki fleiri en eitt hlutverk og áhorfandi samþykkir auðveldlega að þrjár stúlknanna, þær kraftmiklu Ásthildur Sigurðardóttir, Berglind Halla Elíasdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leiki á víxl aðalhlutverkið.
 
Það er líka í anda Brecht að leikmynd og búningar haldi sér nokkurn veginn við þann tíma sem verkið á að gerast á, sautjándu öldina. Þar kennir áhorfandi áhrifa leikstjórans en Auður Ösp Guðjónsdóttir á heiðurinn af þeim og ákaflega er allt einfalt, hreint og fallegt sem hún kemur nálægt, tjöldin á keflum í bakgrunni, atriði sem skuggamyndir ‒ og einnig það í anda Brechts sem lagði ríka áherslu á hægt væri að hafa fagurfræðilega nautn af mynd, myndum á sviðinu. Vagninn er auðvitað ansi kyrrstæður svo ferðalagið verður aldrei nógu skýrt, stríðið heldur ekki. En uppfyllir aðrar kröfur og einkar skemmtilegt atriðið þegar hann hossast á slæmum vegi. Tónskáldið Paul Dessau samdi upphaflegu tónlistina fyrir verkið, en Sævar Helgi Jóhannsson er höfundurinn hér og sjálfur hljóðfæraleikarinn á sviðinu. Hann vitnar sums staðar í Dessau, en vinna hans í heild er einstaklega frumleg og skemmtileg.
 
Og hvað þá með leikarana ungu? Þeir fá allir að njóta sín. Stundum er það á kostnað verksins en áhorfandi lætur sér það eiginlega í léttu rúmi liggja því þarna er augsýnilega komið ungt hæfileikafólk, sterkur hópur sem ef hann getur sigrast á klíkum og kastölum innan íslensks leikhúss er margs af að vænta í framtíðinni. Hápunkturinn í samstarfi leikstjóra og leikara er áhrifamikil samvinna hennar og Rakelar Ýrar Stefánsdóttur sem leikur hina mállausu dóttur, Katrínu, sem er eina persónan er sýnir mannúð í verkinu. Í leikskrá er lögð áhersla á sýningin sé ádeila á stöðu konunnar í stríði, hún sé áhrifalaust fórnarlamb þess og missi allt sitt. Þessi skilningur er andstæður megintilgangi verksins þar sem sýnt er að Mutter Courage er fórnarlamb eigin græðgi. Og eiginlega skilar kvennahugmyndin sér varla sem heildarhugsun  í sýningunni, hins vegar verður hún sem fyrr að sterkum friðarboðskap. 

Marta Nordal er einn áhugaverðasti leikstjóri okkar og vinnur hér af einstakri natni og virðingu með leikurunum ungu. Þeir verða aðalatriðið en ekki hún sjálf. Þó allt beri vissulega ákveðin höfundareinkenni hennar. Ég óska leikstjóra og útskriftarnemum til hamingju með sýninguna.