Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðalmeðferð vegna brunans á Selfossi seinkað

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Aðalmeðferð í máli karls og konu sem ákærð eru fyrir að hafa kveikt í íbúðarhúsi við Kirkjuveg á Selfossi í fyrra fer fram í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Kona og karl létust í eldsvoðanum. Aðalmeðferð málsins átti að hefjast upp úr klukkan níu en fresta þurfti þinghaldi. Þegar dómari gekk inn í salinn vantaði annan sakborninginn í málinu og verjanda hans.

Verjandinn mun hafa stillt vekjaraklukkuna vitlaust og svaf því yfir sig. Sakborningurinn var fastur á Eyrarbakka og fékk ekki leigubíl á Selfoss. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin hefjist áður en klukkan slær tíu. 

Maðurinn er ákærður fyrir íkveikju og manndráp en manndráp af gáleysi til vara. Konan er ákærð fyrir almannahættubrot. Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í október en gæsluvarðhald yfir konunni var fellt úr gildi í nóvember í fyrra. 

Maðurinn er grunaður um að hafa kveikt í gardínum eftir að hafa kveikt í pizzakössum á stofugólfi, vitandi af pari sem var gestkomandi á efri hæð hússins. Fólkið var í annarlegu ástandi þegar það var handtekið skömmu eftir eldsvoðann. Í yfirheyrslu lögreglu yfir manninum kvaðst hann muna að hann hefði kveikt eld í pappakassa í stofu á neðri hæð hússins. Annað væri óljóst. Skyndilega hafi eldur verið kominn um allt. Þá kom fram í ákæru að maðurinn hafi ekki reynt að vara fólkið á efri hæðinni við eða koma því bjargar. 

Aðstandendur konunnar sem fórst í eldsvoðanum krefja manninn um 25 milljónir króna í bætur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson
Héraðsdómur Suðurlands í morgun.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV