Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðallega sót og svifryk frá skemmtiferðaskipum

07.08.2019 - 19:13
Mynd:  / 
Mikill brennisteinn er í svartolíunni sem skemmtiferðaskip brenna og ekki er vitað um margföldunaráhrif þess þegar brennisteinn og svifryk berast saman frá skipunum yfir byggð, að sögn Ragnhildar Guðrúnar Finnbjörnsdóttur, sérfræðings í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun.

Greint var frá því á Vísi í dag að magn brennisteinssvifryks sem mælist við Sundahöfn sé sambærilegt við þrjú til fimm þúsund bíla, samkvæmt mælingum fyrir íslensk náttúruverndarsamtök. Ragnhildur sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag að það sé aðallega sót eða mjög fínt svifryk sem berst frá skemmtiferðaskipunum „Það er kannski aðallega það sem við höfum áhyggjur af.“ Ekki er vitað um margfeldisáhrif þess þegar brennisteinn og svifryk koma saman og segir hún að þessi áhrif geti kannski verið varasöm.

Vísindamenn deila ekki um það hvort svifryk sé heilsuspillandi. „Það er álíka samþykkt innan vísindaheimsins og að sígarettur valdi krabbameini,“ segir Ragnhildur. Fólk sem er með öndunarfærasjúkdóma eins og astma og lungnaþembu getur fundið fyrir versnandi astmaeinkennum andi það að sér svifryki. Það er mjög fínt og getur farið ofan í lungu og jafnvel í blóðrásina og valdið bólgum þar. „Það er búið að sýna fram á að svifryk eykur hættu á heilablóðfalli, hjartsláttartruflunum og hjartaáfalli líka.“ 

Vert er að hugleiða hvort færa eigi hafnir vegna þessarar mengunar frá skemmtiferðaskipum, að sögn Ragnhildar. Við hér á Íslandi séum þó heppin með vindinn og strompar skipa séu hátt uppi og því blandist efnin andrúmsloftinu og dreifist. Í þröngum fjörðum geti það þó gerst að efnin safnist saman, til dæmis á Akureyri. Það sé einnig möguleiki að rafvæða hafnirnar þannig að skipin gangi fyrir rafmagni þegar þau eru við höfn. Stórt skemmtiferðaskip sé þó á við heilt hverfi og þurfi því töluvert af rafmagni.