Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Að vera hinsegin er glæpur í yfir 70 ríkjum

17.08.2019 - 20:02
Mynd: EPA-EFE / EFE
Það er glæpur að vera hinsegin í yfir 70 löndum og í tólf þeirra eru þyngstu viðurlög dauðarefsing. Aðeins 13% aðildaríkja Sameinuðu þjóðanna hafa lögleitt samkynja hjónabönd.

Ísland þykir standa framarlega á heimsvísu þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Það er hins vegar enn langt í land með að hinsegin fólk njóti sömu réttinda og annað fólk í stórum hluta heimsins. Enn er ólöglegt að vera hinsegin í yfir 70 ríkjum í heiminum. Langflest þeirra eru í tveimur stærstu heimsálfunum: Afríku og Asíu. Í tólf þessara ríkja er heimild fyrir því í lögum að beita dauðarefsingu sé fólk sakfellt fyrir það að vera hinsegin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík - RÚV
26 ríki í heiminum hafa lögleitt samkynja hjónabönd.

Frá aldamótum hefur fjöldi ríkja, þar á meðal Ísland, lögleitt samkynja hjónabönd. Á heildina litið hafa þó aðeins 13% aðildaríkja Sameinuðu þjóðanna leyft fólki af sama kyni að ganga í hjónaband. Það eru alls 26 ríki, flest þeirra í Evrópu. Suður-Afríka er eina landið í Afríku sem leyfir samkynja hjónabönd og í allri Asíu, fjölmennustu heimsálfunni, varð Taívan fyrst til þess að lögleiða samkynja hjónabönd fyrr á þessu ári.