Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Að minnsta kosti fimm Íslendingar læknaðir af Covid-19

17.03.2020 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda
Fimm Íslendingar í það minnsta hafa verið útskrifaðir úr einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19 veiruna og fengið grænt ljós hjá heilbrigðisyfirvöldum til að snúa aftur út í samfélagið. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. 

Már sagði í viðtali við fréttastofu í gær að fjölmargir sem fengu veiruna snemma væru á batavegi og sumir orðnir alveg einkennalausir. Allir væru þó enn í einangrun. Hið rétta er að fimm Íslendingar hafa síðustu daga verið útskrifaðir úr einangrun eftir Covid-19 smit.

Smitsjúkdómadeild Landspítalans og sóttvarnarlæknir hafa útfært skilgreiningar á því hvenær hægt sé að útskrifa fólk sem greinst hefur með veiruna.

„Næstu daga munu fleiri útskrifast samkvæmt þessari skilgreiningu. En við erum að ráðleggja fólki að huga áfram vel að hreinlæti þrátt fyrir að hafa verið útskrifað. Þannig það er hægt að segja að þetta fólk sé læknað af Covid? „Já, það er hægt að segja það.“  segir Már.

Fyrsta tilfelli Covid-19 veirunnar greindist hér á landi 28. febrúar. Rúmum hálfum mánuði síðar eru smitin orðin rúmlega tvö hundruð. Nokkur alvarleg tilfelli hafa komið upp og tveir liggja á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa greinst með veiruna.