Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

11.01.2020 - 12:05

Höfundar

Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir í kvöld Vanja frænda eftir Anton Tsjekhov, einn af brautryðjendum nútímaleikritunar. Verkið er í nýrri þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar en Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir. 

Vanja frændi var frumsýnt í Moskvu árið 1899. Verkið segir frá prófessor sem kemur á sveitasetur látinnar eiginkonu sinnar með nýja konu upp á arminn. Dóttir prófessorsins úr fyrra hjónabandi og fyrrum mágur hans, Vanja, hafa stritað við að halda búinu við en nú hyggur sá gamli á róttækar breytingar sem kallar á átakamikið uppgjör.  

Brynhildur lýsir verkinu sem sögu af innri ófullnægju. „Slátturinn er þar; í tilfinningum fólksins. Allir eru að bera tilfinningar sínar á borð fyrir rangan aðila. Allir elska rangan aðila og úr verður tilfinningarússibani. Við þráum að elska einhvern og vera elskuð og bara fá pláss. Þetta eru mannlegar tilfinningar og það er hræðilegt að láta spæla sig. Og þá er kúnstin að finna þetta grátbroslega, geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu.“

Mynd: RÚV / RÚV
Einnig var rætt við Brynhildi Guðjónsdóttur um Vanja frænda í Víðsjá á Rás 1.

Gunnar Þorri segir að lykillinn að því að þýða Tsjekhov sé að sætta sig við tilfinninguna um að það vanti alltaf eitthvað aðeins upp á. „Því ef manni líður eins og maður sé „með þetta“ er maður staddur í eigin sjónarhorni. Það þarf að vanta aðeins upp á til að öll þessi ólíku sjónarhorn geti verið til á sama tíma og verið jafnrétthá.“

Fjallað var um Vanja frænda í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Leiklist

Eyðileggur verkið og límir svo saman aftur

Popptónlist

Vel upplýst fólk sem veit hvað það er að gera

Leiklist

Nýr lestur á Ríkharði þriðja nær fögru flugi

Leiklist

„Þetta var bara sprengikvöld“