Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Actavis framleiddi ópíóíðalyf í milljarðavís

28.07.2019 - 18:39
Mynd: RÚV - Kolbrún Þóra Löve / RÚV
Gríðarlega mikilvægt var fyrir Actavis að ná sterkri stöðu á Bandaríkjamarkaði árið 2005, sagði þáverandi forstjóri þess, í tilefni kaupa Actavis á bandarísku lyfjafyrirtæki. Næstu ár á eftir seldi það milljarða taflna af ópíóíðalyfjum í Bandaríkjunum, samkvæmt Washington Post. 

Washington Post byrjaði fyrir tíu dögum að birta greinaflokk kallaðan ópíóíðaskjölin, sem unninn er upp úr gagnabanka bandaríska lyfjaeftirlitsins, sem blaðið fékk eftir úrskurð dómstóla, og sýnir fjölda ópíóíðalyfja og dreifingu þeirra og framleiðendur þeirra í Bandaríkjunum frá 2006 til 2012. 

Actavis, sem var fyrri hluta þessa tímabils að stærstum hluta í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, virðist samkvæmt Washington Post hafa verið stórtækt í sölu ópíóíðalyfja í Bandarkjunum, meðal annars í gegnum bandaríska fyrirtækið Amide, sem það keypti um mitt ár 2005. Það hafði þá nýverið fengið leyfi til þess að framleiða samheitalyf OxyContins. 

Róbert Wessman þáverandi forstjóri Actavis Group sagði í sjónvarpsfréttum við það tilefni 20. maí 2005:

„Með kaupunum á Amide erum við að tryggja okkur aðgang að stærsta lyfjamarkaði í heimi. Nú, Bandaríkjamarkaður er í dag með um helming af heimssölu. Þannig að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur hjá Actavis að ná sterkri stöðu á Bandaríkjamarkaði.“

Mikill uppgangur var hjá Actavis á þessum tíma og hlaut það viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins í desember 2005. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Róbert Wessmann og Divya C. Patel forstjóri Amide undirrita samning um kaup Actavis.

Washington Post segir að Actavis hafi verið eitt þriggja stórtækustu samheitalyfjafyrirtækjanna í Bandaríkjunum í framleiðslu ópíóíðalyfjanna á meðan faraldurinn var sem mestur af völdum þeirra. 

Sala Actavis á samheitalyfi Oxycontíns var 559 milljónir taflna árið 2006 og hafði aukist í 1,1 milljarð taflna árið 2012. Það seldi líka annað ópíóíðalyf, hydrocondon, og var salan 2,2 milljarðar taflna 2006 og tæpir þrír milljarðar 2012. 

Í Washington Post kemur fram að bandaríska lyfjaeftirlitið bað stjórnendur Actavis síðla árs 2012 að draga verulega úr framleiðslu. Stjórnendur Actavis sögðu hins vegar að þeir seldu lyf samkvæmt viðurkenndum aðferðum og gætu ekki borið ábyrgð á ólöglegu athæfi annarra. Einn stjórnenda Actavis á þessum tíma sagði að starfsmenn lyfjaeftirlitsins hefðu komið fram við starfsmenn Actavis eins og hverja aðra dópsala á fundum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV