Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ábyrgð notendafyrirtækja skýr í lögum

10.07.2019 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin heimild er í lögum um starfsmannaleigur til að leggja fram kröfu um miskabætur á notendafyrirtæki. Þetta segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins. Slíkar kröfur eigi samkvæmt lögunum að beinast að vinnuveitanda fólksins, starfsmannaleigunni.

Efling hefur stefnt starfsmannaleigunni Menn í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt fyrir vangoldin laun fjögurra Rúmena og farið er fram á rúmar sex og hálfa milljón króna í vangoldin laun og eina og hálfa milljón á mann í miskabætur vegna vanvirðandi meðferðar og þvingunar- eða nauðungarvinnu, eins og það er orðað í stefnunni.  Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Eflingar, sagði í fréttum RÚV að það væri ljóst að Eldum rétt bæri keðjuábyrð í málinu. 

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að lög um starfsmannaleigur séu alveg skýr um ábyrgð notendafyrirtækja sem nýta sér starfsmannaleigur. Kröfu um miska- eða skaðabætur sé aðeins hægt að beina gegn starfsmannaleigunni, sem sé vinnuveitandinn.

„Það er bara engin lagaheimild fyrir því að hafa þá kröfu uppi í rauninni gagnvart einhverjum öðrum en eigin vinnuveitanda, eftir atvikum. Það er alveg skýrt og það er ekkert túlkun. Þetta er 100 prósent skýrt samkvæmt lögunum að notendafyrirtækið ber einungis ábyrgð á hugsanlega vangoldnum launum og eftir atvikum launatengdum gjöldum sem tengjast þá starfstímanum hjá viðkomandi fyrirtæki. Það eru engar aðrar greiðslur sem hægt er að sækja, í rauninni, á notendafyrirtækið,“ segir Ragnar.

Í fjórðu grein laga um starfsmannaleigur segir um ábyrgð notendafyrirtækja:„Ábyrgð notendafyrirtækis nær til vangoldinna launa og starfskjara sem starfsmaður hefði að lágmarki átt að njóta, sbr. 5. gr. a, á þeim tíma sem hann sinnti störfum fyrir notendafyrirtækið sem og vangoldinna launatengdra gjalda. Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna.“

Samkomulag um starfsmannaleigur

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands undirrituðu í fyrra samkomulag um starfsmannaleigur þar sem samið var um leiðir til að auka traust á starfsemi starfsmannaleiga, meðal annars með sérstakri viðurkenningu starfsmannaleiga sem hafa sýnt og sannað að þær séu þess verðar. Ragnar segir að það hafi dregist að hrinda samkomulaginu í framkvæmd til að koma verklaginu af stað og bjóða upp á viðurkenninguna. „Það verður nú því miður að skrifast á Alþýðusambandið hvað þetta hefur dregist.“

Ragnar segir rétt að árétta að starfsmannaleiguþjónusta sé lögmæt starfsemi. „Menn virðast vera að reyna að skapa þannig andrúmsloft að menn eigi að óttast það að skipta við starfsmannaleigur í stað þess að fara þá leið, sem samkomulagið frá því í fyrra gerir ráð fyrir, að skapa traust um starfsemina með ákveðinni aðferðarfræði. Það er verið að búa til tortryggni og að það sé undirliggjandi einhvers konar hótun að þau fyrirtæki sem skipti við starfsmannaleigur, að þau eigi yfir höfði sér að það sé farið af stað með kröfur sem eiga sér ekki í stoð í kjarasamningum eða lögum. Virðist með þeim einum tilgangi að valda hlutaðeigandi fyrirtækjum tjóni. Ég get ekki séð það með öðrum hætti en að þeim verði refsað fyrir að eiga í þessum viðskiptum við starfsmannaleigur.“ 

Fram hefur komið í fréttum að þrjú önnur fyrirtæki, sem áttu einnig í viðskiptum við starfsmannaleiguna Menn í vinnu, hefðu fengið kröfu frá Eflingu með vísun í keðjuábyrgð í lögum um starfsmannaleigur. Þau hafi öll gengist við ábyrgð sinni gagnvart verkamönnunum og fallist á að greiða kröfurnar.