Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ábyrgð ferðaþjónustunnar mjög mikil

31.05.2019 - 19:30
Mynd: RÚV / RÚV
Búið er að brjóta flesta dropsteina í hellinum Leiðarenda og krota á veggi, eins og fréttastofa hefur áður greint frá. Ótal ferðamenn hafa komið í hellinn á undanförnum árum, en þegar nafnið er slegið inn í leitarvél Google koma upp fjölmargar vefsíður sem bjóða upp á ferðir í hellinn, sem og ráðleggingar um hvernig á að komast að honum upp á eigin spýtur.

Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir með leiðsögumanni og kosta þær um tíu þúsund krónur á mann. Stjórnendur þeirra ferðaþjónustufyrirtækja, sem fréttastofa ræddi við, sem bjóða upp á ferðir í hellinn, vildu ekki ræða um umgengni um hellinn. Fyrirtækin hafa ekki gert neinar ráðstafanir til verndar hellinum. 

Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun segir ábyrgð ferðaþjónustuaðila mjög mikla. „Það þarf náttúrulega að passa vel upp á þessar gersemar sem við eigum og það er ekkert sjálfgefið að það séu hundruðir manna sem fara niður í sama hellinn á hverjum degi ef eftirlitið er ekki gott," segir hún.

Hafnarfjarðarfjarðarbær vinnur nú að áætlun til þess að vernda hellinn og bæta aðstöðuna. Hraunhellar eru verndaðir samkvæmt náttúruverndarlögum og segir Lovísa að næsta skref gæti verið að friðlýsa þá. Ástandið sé svipað í fleiri hellum og grípa þurfi til aðgerða strax.

„Hellar sem eru lítt raskaðir eða ósnortnir, eru með þetta gífurlega skraut sem hellar hafa við eðlilegar aðstæður, dropsteina, hraunstrá og örverur, sem eru mjög merkilegar, það þarf fyrst og fremst að loka þeim og síðan þarf að gera þá aðgengilega fyrir ferðamenn," segir hún.

Skapti Örn Ólafsson upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar segir að því miður sé ástandið í Leiðarenda ekki einsdæmi. Það sé að hluta á ábyrgð ferðaþjónustunnar en taka verði tillit til þess að framkvæmdasjóður ferðamála sé fjármagnaður af ferðaþjónustufyrirtækjum. Nýta ætti styrki úr honum til að bæta aðstöðu við og í hellunum.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður