Abbey Road plata Bítlanna 50 ára

Mynd með færslu
 Mynd: Parlophone Music Sweden - Wikipedia

Abbey Road plata Bítlanna 50 ára

26.09.2019 - 09:50

Höfundar

Þeir voru jafnan kallaðir bresku Bítlarnir hér í Ríkisútvarpinu í gamla daga, þeir John Lennon, Paul McCartney, George Harrison og Ringo Starr. Hálf öld er í dag síðan síðasta platan sem þeir hljóðrituðu saman, Abbey Road, kom út í Bretlandi.

Harðvítugar deilur í upphafi árs

Lögin á Abbey Road voru hljóðrituð í EMI hljóðverinu við götuna Abbey Road í Lundúnum frá apríl fram í ágúst 1969.  Þess má geta að ári síðar ákváðu stjórnendur EMI hljómplötuútgáfunnar að nefna hljóðverið Abbey Road.  Fyrr á árinu 1969 unnu Bítlarnir að annarri plötu, sem átti að heita Get Back, en um síðir var nefnd Let It Be. Samkomulag fjórmenninganna var vægast sagt hörmulegt. George Harrison gekk út, kvaðst vera hættur og sneri ekki til baka fyrr en hinir þrír höfðu fallist á ýmis skilyrði sem hann setti fram. Nærveru upptökustjórans George Martins, sem hafði verið við stjórnvölinn allt frá árinu 1962, var heldur ekki óskað. John Lennon kvaðst vera búinn að fá sig fullsaddan af vinnubrögðum stjórans.

epa05202144 (FILE) A file picture dated 04 May 1999 shows British record producer/composer arranger Sir George Martin at Sotheby's in London, England, during the announcement of the sale of the instrumental score and BPI sales award for Candle in the Wind '97, the tribute song re-written for the funeral of Diana Princess of Wales, which will be sold by Sotheby's on 21 May 1999. According to media reports on 09 March 2016, Sir Geroge Martin has died at the age of 90.  EPA/SILKE LOHMANN -- BESY QUALITY AVAILABLE
 Mynd: EPA
George Martin upptökustjóri.

Upptökustjórinn varð undrandi

Það kom George Martin því á óvart þegar Paul McCartney hringdi í hann um miðjan apríl 69 og spurði hvort hann væri til í að stýra gerð einnar Bítlaplötu í viðbót. Eftir erfiðleikana við gerð Let It Be bjóst Martin við að hljómsveitin væri búin að vera. Hann kvaðst þó vera tilbúinn í eina plötu í viðbót, en einungis ef fjórmenningarnir féllust á að vinna hana með gamla laginu. „Er John samþykkur því?" spurði Martin. „Já, í alvöru," svaraði McCartney.

Svo mikið lá á að byrja á plötunni að einungis John Lennon og Paul McCartney mættu til starfa fyrstu dagana ásamt upptökumönnum. George Harrison var erlendis og Ringo Starr við upptökur á bíómyndinni Magic Christian þar sem Peters Sellers var í aðalhlutverkinu. Fyrsta verkefnið var að hljóðrita lagið The Ballad Of John And Yoko eftir Lennon. Höfundurinn sá um allan gítarleik ásamt því að syngja lagið. McCartney lék á trommur og jafnframt á bassa. Einn upptökumaðurinn orðaði það svo að umskiptin hafi verið algjör frá því á Let It Be upptökunum. Gömlu félagarnir hafi greinilega notið þess í botn að vinna saman við að koma laginu saman.

Poppóperur voru í tísku

Á síðari hluta sjöunda áratugarins var nokkuð um að dægurtónlistarmenn sendu frá sér svokallaðar poppóperur. The Who gerði A Quick One While He's Away, Frank Zappa og hljómsveit hans gerðu Absolutely Free, The Small Faces voru með Happiness Stan og Keith West sendi frá sér Excerpt From A Teenage Opera, svo nokkur verk séu nefnd. Þá er vert að nefna rokkóperuna Tommy með The Who, sem kom út meðan Bítlarnir voru önnum kafnir við að hljóðrita Abbey Road. Tommy var tímamótaverk sem lagði línurnar fyrir rokkóperur framtíðarinnar.

Paul McCartney var spenntur fyrir poppóperuforminu. Hann stakk upp á að þeir John Lennon legðu nokkra lagabúta í púkkið og skeyttu saman í litla svítu eða syrpu, - eins konar poppóperu. - Lennon leist vel á hugmyndina, þótt hann segði síðar að hún hefði verið glötuð. Skeytt var saman átta lagabútum þannig að úr varð rúmlega sextán mínútna syrpa. Sumir bútarnir voru glænýir, aðrir voru endurvinnsla af lögum sem ekki höfðu komist á fyrri plötur hljómsveitarinnar.

epa03207689 British singer Paul McCartney waves during his performance at the Omnilife stadium in Guadalajara, Mexico, 05 May 2012.  EPA/Ulises Ruiz Basurto
 Mynd: YouTube
Paul McCartney. Mynd: YouTube

Lagahöfundar í stuði

Lennon greindi frá þessari syrpuhugmynd í viðtali við músíkblaðið New Musical Express. Hann sagði að þeir McCartney væru í miklu stuði um þessar mundir og færu létt með að semja tuttugu lög á dag hvor ef þeir gætu gefið sig að þeirri vinnu óskiptir. En því miður væru afköstin sennilega ekki meiri en tólf lög á dag. Reyndin var hins vegar sú að meira en þrír mánuðir liðu frá því að Lennon kom með The Ballad Of John And Yoko þar til hann kynnti sitt næsta lag til leiks, Come Together.

Í tvíbreiðu rúmi í hljóðverinu

Ýmislegt varð til þess að tefja John Lennon frá lagasmíðum sumarið 1969, ekki síst að hann og Yoko Ono lentu í alvarlegu bílslysi í Skotlandi ásamt börnum sínum í byrjun júlí. Eftir nokkra daga á sjúkrahúsi sneru þau þó í hljóðverið. Yoko mætti með kórónu á höfði til að fela ljótan skurð á enninu. Hún var barnshafandi og fékk fyrirmæli lækna um að halda sig í rúminu meðan hún væri að jafna sig. Ekki kom til mála að hún lægi heima meðan maður hennar var í hljóðveri, þannig að John brá á það ráð að fá sent tvíbreitt hjónarúm úr Harrods sem var komið fyrir í hljóðverinu. Úr því gat Yoko fylgst með framvindu mála. Að auki hafði hún hljóðnema við rúmstokkinn og gat því rætt við mann sinn eftir þörfum.

Platan sló í gegn

Síðustu handtökin voru lögð á lögin á Abbey Road í byrjun september. Platan kom síðan út þann 26. Hún fékk misjafnar viðtökur gagnrýnenda, en almenningur var með á nótunum. Abbey Road rauk beint í fyrsta sæti breska vinsældalistans og sat þar í sautján vikur. Hún fór einnig á toppinn í Bandaríkjunum skömmu eftir útkomuna þar í landi.

Hér á landi var Abbey Road tekið fagnandi. Íslenskar hljómsveitir voru fljótar að æfa lög af plötunni til að flytja á dansleikjum í Glaumbæ, Silfurtunglinu, Breiðfirðingabúð og félagsheimilum víðs vegar um landið. Ein þeirra, Júdas frá Keflavík, lét sig ekki muna um að flytja plötuna nánast alla á unglingadansleik í Sigtúni við Austurvöll, réttum mánuði frá því að hún kom út.

Nýr hljóðheimur á hverri plötu

Magnús Kjartansson, aðalsöngvari og hljómsveitarstjóri Júdasar, segir að það hafi ávallt verið tilhlökkunarefni þegar ný Bítlaplata kom út. Hljómsveitir segir hann að hafi í þá daga ekki spilað neitt annað en það sem þeim fannst skemmtilegt. „Bítlaplöturnar voru orðnar nokkrar áður en Abbey Road kom út," segir hann. „Það var alltaf jafn spennandi, en mest spennandi var kannski það hversu oft maður þurfti að hlusta á plötuna til þess að aðlaga sig henni. Það var vegna þess að Bítlarnir gerðu í því að búa til nýjan hljóðheim á hverri plötu. En það frétti ég ekki fyrr en löngu síðar. Abbey Road hefur sinn sérstaka hljóðheim."

Bítlarnir voru einnig almennt ánægðir með nýju plötuna, þar á meðal Ringo Starr. Hann sagði einhverju sinni í viðtali að þegar hljómsveitin væri spennt fyrir lögum sem hún var að vinna yrðu þau spennandi. Þá skipti ekki máli þótt fjórmenningarnir atyrtu hver annan. Með gott efni í höndunum yrði árangurinn þúsund prósent.

Harrison lætur til sín taka

Magnús Kjartansson segist ekki muna eftir neinum veikum punktum á Abbey Road plötunni. Þar úi og grúi reyndar af nokkuð sundurleitum lagahugmyndum. Þeir John Lennon og Paul McCartney hafi haft ólíkar hugmyndir um lögin sem áttu að rata á plötuna, Lennon hafi viljað hafa þau með alvarlegum undirtóni. McCartney hafi byggt lög sín meira á hefðbundinni dægurtónlist og svo hafi George Harrison þurft að berjast fyrir því að koma sínum lögum á framfæri. Magnúsi finnst að þau hefðu mátt vera mun fleiri á Bítlaplötunum: „Maður er alltaf að sjá það betur og betur hvað hver einasta nóta var úthugsuð hjá honum allt tímabilið og getur einhvern veginn ekki hafa verið öðruvísi."

Í bókinni Sound Pictures, seinna bindi nýrrar ævisögu George Martins, kemur fram hversu undrandi hann varð þegar George Harrison kom með lagið Something til hljóðritunar á Abbey Road. Þar þótti honum nafni sinn hafa tekið stórt stökk fram á við sem lagahöfundur. Ekki minnkaði undrun hans við lagið Here Comes The Sun, sem hann taldi að hafi markað þáttaskil á höfundarferli gítarleikarans.

Here Comes The Sun kom aldrei út á smáskífu í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Þegar iTunes veftónlistarveitan fékk að bjóða lög Bítlanna til sölu árið 2010 reyndist það vera svo vinsælt að það fór í 14. sæti á bandaríska vinsældalistanum og 58. á þeim breska.

Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
John Lennon og Yoko Ono. Mynd: YouTube

Endalokin nálgast

Þótt gagnrýnendur kvörtuðu yfir einu og öðru á Abbey Road plötunni voru þeir flestir sammála um að George Harrison hefði sýnt þar stórstígar framfarir sem lagahöfundur. Nafni hans Martin var einnig ánægður með útkomuna. Hann segir að yfirbragð Abbey Road hafi verið glaðlegt, líkast til vegna þess að allir gerðu sér grein fyrir að þeir væru að gera sína síðustu plötu.

Hrikt hafði í stoðum The Beatles allt frá því að fjórmenningarnir unnu að tvöföldu plötunni sem alla jafna er kölluð Hvíta albúmið. Ástandið fór stöðugt versnandi og sex dögum fyrir útkomu Abbey Road, þann 20. september, tilkynnti John Lennon að hann vildi skilnað, eins og hann orðaði það. Ákvörðun hans var haldið leyndri, þangað til Paul McCartney greindi frá því í apríl árið eftir að hann ætlaði ekki að vinna meira með sínum gömlu félögum. Hann sagði í viðtali löngu síðar að það væri svipað að vera í hljómsveit og herþjónustu. Einn daginn færu brúðkaupsklukkurnar að klingja, menn gengju í hjónaband og færu að hegða sér eins og venjulegt fólk.

Margir urðu til þess að kenna Yoko Ono um það að upp úr samstarfi fjórmenninganna slitnaði. Hún sagði einhverju sinni í sjónvarpsviðtali að saman hafi þeir verið stórkostlegur hópur. En að því hafi komið að hver og einn vildi meira sjálfstæði og því hefði legið í hlutarins eðli að upp úr samstarfinu slitnaði.

Samstarfi Bítlanna lauk sem sagt í september 1969. Nýlega komu fram upplýsingar um hljóðritun af fundi sem þeir John Lennon, Paul McCartney og George Harrison áttu í höfuðstöðvum Apple fyrirtækis þeirra í Lundúnum. Þar er Lennon sagður hafa lagt til að þeir tækju upp eina plötu í viðbót. Hver þeirra þriggja legði fram fjögur lög og Ringo Starr tvö ef hann ætti þau til. Lennon og McCartney hættu að merkja lögin með nöfnum beggja og að tveggja laga plata kæmi út fyrir jólin 1969. Breska dagblaðið Guardian greindi nýlega frá þessum fundi, sem Lennon hljóðritaði þar sem Ringo lá á sjúkrahúsi. Að sögn blaðsins leystist fundurinn upp í karpi, þannig að ekkert varð úr hugmynd Lennons.

Á Wikipediu segir um lagið Cold Turkey eftir John Lennon að höfundurinn hafi lagt það til við Paul McCartney eftir að vinnu við Abbey Road plötuna lauk, að Bítlarnir gæfu það út á smáskífu. McCartney hafi hafnað hugmyndinni. Cold Turkey kom síðan út á smáskífu með Plastic Ono Band, nýrri hljómsveit Lennons og Yoko Ono mánuði á eftir Abbey Road.

epa01350306 Former Beatle Ringo Starr at the Chelsea Flower Show in London, Britain, 19 May 2008. Starr got together with Jools Holland, Damon HIll, former Beatle manager George Martin and others at a garden in honour of George Harrison.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Ringo Starr.

Vinnan heldur áfram

Þótt Bítlarnir ættu ekki eftir að vinna í hljóðveri fjórir saman eftir að þeir luku við gerð Abbey Road var hlutverki upptökustjórans aldeilis ekki lokið. Hann átti eftir að lagfæra og endurhljóðblanda Bítlalög út starfsferilinn. Þegar honum lauk tók sonur hans Giles Martin við keflinu og er enn að. Á morgun, föstudag, kemur einmitt út fjögurra diska endurútgáfa Abbey Road plötunnar, sem hann vann að mánuðum saman. Safnið hefur hlotið heitið Abbey Road Anniversary Super Deluxe. Þar er að finna öll lögin sem voru á upprunalegu útgáfunni og allnokkrar útgáfur þeirra til viðbótar sem ekki voru valdar á endanum. Einnig eru þar tvö lög sem aldrei stóð til að færu á Bítlaplötu, Come And Get It og Goodbye, bæði eftir Paul McCartney. Hið fyrra sló í gegn með hljómsveitinni Badfinger og hið síðara gerði söngkonan Mary Hopkin vinsælt.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan gerir Giles Martin grein fyrir vinnunni sem liggur að baki endurgerð Abbey Road. Þar segir hann meðal annars að með átta rása upptökutækninni sem hljómsveitin hafði yfir að ráða við gerð plötunnar hafi hún í raun lagt grunninn að því hvernig plötur voru hljóðritaðar á áttunda áratug síðustu aldar.