Áætlað að halda til loðnuleitar 13. janúar

Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar heldur til loðnuleitar seinnipart næstu viku ef áætlanir ganga eftir. Fiskifræðingur telur varla ástæðu til bjartsýni miðað við síðustu mælingar á loðnustofninum.

Stefnt er að því að Árni Friðriksson RE fari af stað 13. janúar og að honum fylgi veiðiskip til aðstoðar við loðnuleitina. Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir búið að útbúa fjögur veiðiskip þannig að þau verði til taks auk rannsóknarskipsins. Enn sé þó ekki ljóst hversu mörg þeirra verði kölluð til.

Byrja við landgrunnsbrúnina fyrir norðan land

En ferðinni er heitið norður fyrir land. „Að venju þá munum við til að byrja með einblína á landgrunnsbrúnina fyrir norðan land. Og við munum fara þar yfir og glöggva okkur á því hvernig hún liggur og hvert hún er komin í göngunni," segir Birkir.

Varla ástæða til bjartsýni

Mjög lítið mældist af loðnu í viðamiklum rannsóknarleiðangri í haust og fyrir fram segist Birkir því hvorki bjartsýnn á árangur við loðnuleitina né komandi vertíð. „Það hefur svosem gerst að við höfum fundið meira í seinni mælingum. Þannig að við verðum bara að bíða og sjá."

Mikilvægt að vanda til verka

Og eftir loðnubrestinn á síðustu vertíð sé mikil pressa á fiskifræðinga að leyfa einhverja veiði. Og þeir geri sér auðvitað vel grein fyrir því hvað sé í húfi. „En það er alltaf mikilvægt fyrir okkur að hafa bæði það hugfast og líka að þessi tegund er mikilvæg fyrir vistkerfið og mikilvæg fæða fyrir aðra nytjastofna. Og það er mikilvægt fyrir okkur að vanda til verka þegar við framkvæmum þetta."