Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Á von á átökum um rammann og hálendisþjóðgarðinn

12.01.2020 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Bergþór Ólason formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á von að hart verði tekist á um þingsályktunartillögu um rammáætlun og frumvarp um hálendisþjóðgarð sem leggja á fram í febrúar. Hann segir að umræðan um loftslagsmál ýti undir að fjölga þurfi virkjunarkostum um umhverfisvæna græna orku.

Vill klára rammann á undan þjóðgarðinum

Sjálfur vill Bergþór að þingsályktunartillagam verði afgreidd á undan frumvarpinu um hálendisþjóðgarð. Hann sagði sig frá vinnunni um hálendisþjóðgarð fyrir áramótin því honum þótti of hratt farið. 

„Þau sjónarmið sem að ráðherra hefur sett fram til að mynda í fréttum í gær og fyrradag benda til þess að hann álíti þá að með þessu sé verið að slá allan biðflokkinn af hvað verkefni rammaáætlunar varðar ef frumvarp um miðhálendisþjóðgarð verður samþykkt. Þannig að ég er nú hræddur um að þetta geti orðið nokkuð þungt fyrir inn í þinginu. Ég held að rétta röðin í þessu sé að klára rammaáætlunina og síðan skoðum við mál er snúa að miðhálendisþjóðgarðinum. En auðvitað koma málin bæði bara inn í þingið og inn til nefndarinnar og þar fá þau bara faglega og góða umfjöllun þegar ráðherran hefur mælt fyrir þeim,“ segir Bergþór.

Loftslagsvá ýtir undir fleiri virkjunarkosti

Þingsályktunartillagan er þriggja ára gömul og umræður um loftslagsvá alvarlegri nú en þá. 

„Það eru nú ýmsir sem halda því fram að umræðan um loftslagsmál ýti undir að fjölga þeim kostum sem tækir eru til að framleiða umhverfisvæna græna orku. Þannig að það tosast á sjónarmið hvað þetta varðar. En ég reikna með að þessi umræða verði mjög ákveðin úr báðum áttum þ.e.a.s. að bæði ný sjónarmið og upplýsingar hafi komið fram og síðan auðvitað það hvort að horfa eigi á þessi loftslagsmál heildstætt á grundvelli þess að þetta sé alheimsmál eða þá hvort þarna er hægt að horfa á þetta mjög þröngt heima fyrir.“ 

Ráðherrann á mörgum fundum að kynna þjóðgarðinn 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti fyrir hádegi frumvarpið um stofnun hálendisþjóðgarðs. Fundurinn var í félagsheimilinu Breiðumýri í Reykjadal. Klukkan fjögur heldur hann fund í Húnavallaskóla í Húnavatnshreppi og á hótel Hamri í Borgarnesi í kvöld. Næstu daga heldur ráðherrann fimm fundi annars staðar á landinu. Á morgun klukkan fimm verður fundurinn í Reykjavík í húsi Vigdísar og verður honum streymt á vef umhverfisráðuneytisins. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp um hálendisþjóðgarðs í febrúar. Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið á samráðsgátt stjórnvalda rennur út á miðvikudaginn. Aðeins tvær umsagnir hafa borist.