Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Á þriðja tug látin í flóðum og skriðum

13.07.2019 - 08:19
Erlent · Hamfarir · Asía · Indland · Nepal · Veður
epaselect epa07712326 A man carries his daughter as they leave a flooded area following torrential rains in Kathmandu, Nepal, 12 July 2019. Meteorologists warned of heavy monsoon rains in Nepal that put several parts of the country at risk of floods and landslides.  EPA-EFE/NARENDRA SHRESTHA
Faði forðar sér og dóttur sinni frá flóðum í höfuðborg Nepals, Katmandú Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 17 létu lífið í skriðum og flóðum í Nepal í gær og ellefu týndu lífinu við svipaðar aðstæður í norðausturhéruðum Indlands. Monsúnrigningar geisa í Nepal og á norðanverðu Indlandi og gegndarlaust úrhelli síðustu sólarhringa hefur valdið flóðum, aur- og grjótskriðum víða á þessu svæði. Í Nepal er ástandið slæmt um land allt og auk þeirra sautján sem fórust er minnst sjö saknað og jafnmargir eru slasaðir.

Á Indlandi fórust sex í Assam-héraði í gær og fimm í Arunachal Pradesh, samkvæmt upplýsingum yfirvalda.

Spáð er áframhaldandi stórrigningum þar eystra í dag og er almenningur hvattur til að koma sér í öruggt skjól sé þess nokkur kostur og hafa allan vara á sér. Nær 150 manns fórust í Nepal á regntímabilinu í fyrra, en þar byrja rigningarnar yfirleitt seint í júní og standa fram eftir öllum ágústmánuði. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV