Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á þriðja hundrað björgunarsveitarmenn hafa leitað

12.12.2019 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Um 800 björgunarsveitarmenn hafa verið við störf undanfarna daga vegna óveðursins. Þar af hafa 224 komið að leit að pilti í Sölvadal. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarna sem send var fjölmiðlum nú á fimmta tímanum. Stöðuskýrslan er frá hádegi í dag. 

Bjargir hafa verið sóttar frá nærliggjandi svæðum auk liðsauka frá Suðvestur-horninu og Vesturlandi. Um 80 björgunarsveitarmenn hafa sinnt útköllum í Húnavatnssýslu og 75 í Skagafirði. 223 björgunarsveitarmenn hafa sinnt óveðurs- og ófærðarverkefnum á Norðurlandi eystra og víðar.

Björgunarsveitir hafa leyst vel yfir 1000 verkefni á landsvísu. Áður en óveðrið skall á sendi Slysavarnafélagið Landsbjörg öfluga snjóbíla á lykilstaði á Norðvesturlandi og Ströndum sem líklegt var að yrðu fyrir mestum áhrifum af veðrinu.

Í skýrslunni kemur líka fram að Neyðarlínan hafi fengið fjölda hringinga. Í fyrradag komu yfir 750 símtöl inn til Neyðarlínunnar og þann í gær komu yfir 680 símtöl.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV