Á þessum degi: Furðumargir leikir við Kanada

Mynd með færslu
 Mynd: Morgunblaðið - RÚV / Morgunblaðið

Á þessum degi: Furðumargir leikir við Kanada

27.03.2020 - 13:20
Keppnisíþróttir víðsvegar um heiminn og hér á landi liggja niðri næstu vikur vegna COVID-19-faraldursins. Þar sem fátt er um að vera í heimi íþróttanna ætlar íþróttadeild RÚV líta um öxl. Dagurinn í dag er 27. mars.

Kanadaleikir í gríð og erg

Þennan dag árið 1976 léku bæði karla- og kvennalandslið Íslands við lið Kanada í Laugardalshöll. Þetta voru fyrstu leikir beggja liða við Kanada. Það skýrðist af því að Kanada var með keppnisrétt fyrir bæði lið sín á Ólympíuleikunum þá um sumarið en leikarnir voru einmitt í Montreal í Kanada.

Karlaliðið fór létt með kanadíska liðið og vann með 23 mörkum gegn 19. Guðjón Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með 5 mörk sem lék undir stjórn Viðars Símonarsonar. Liðin mættust svo aftur degi síðar og Ísland vann þá 22-11. Þetta voru ekki einu leikir liðanna árið 1976 því tvisvar í viðbót sitt hvorum megin við mánaðamótin júní/júlí 1976.

Kvennalið Íslands átti í aðeins meira brasi. 12-12 fór leikur liðanna á þessum degi fyrir 44 árum. Degi síðar vann Ísland hins vegar 14-13. Markahæst í íslenska liðinu í báðum leikjum var Arnþrúður Karlsdóttir en hún skoraði helming marka Íslands í báðum leikjum. Síðar átti hún eftir að geta sér gott orð, og gerir raunar enn, sem útvarpskona. Á myndinni að ofan má sjá Arnþrúði skora eitt marka sinna gegn Kanada.

Kanadísku liðin riðu svo ekki feitum hesti frá handboltakeppni Ólympíuleikanna um sumarið. Bæði lið töpuðu öllum leikjum sínum og urðu í neðsta sæti. Sovétríkin unnu gull hjá báðum kynjum.

Undirbúningur HM á fullu

Fyrir tveimur árum mætti Ísland Perú í fótboltalandsleik karla. Liðin mættust á Red Bull Arena í New Jersey í Bandaríkjunum og vann Perú 3-1. Þetta var fyrsti og eini leikur Íslands gegn Perú. Jón Guðni Fjóluson skoraði mark Íslands í leiknum og er það eina mark hans fyrir A-landsliðið.

Bæði lið voru að búa sig undir HM í Rússlandi þá um sumarið. Hvorugt liðanna komst áfram úr sínum riðli.

27. mars 2010 mætti kvennalandslið Íslands svo Serbíu á útivelli í undankeppni HM 2011. Ísland vann þann leik 2-0 með tveimur mörkum frá Hólmfríði Magnúsdóttur. Hvorugt liðanna komst á HM en Frakkland vann riðilinn og komst á HM eftir sigur á Ítalíu í umspili.

Lampard skoraði fjögur

Frank Lampard, núverandi þjálfari Chelsea en þá leikmaður liðsins, var heldur betur í fantaformi á þessum degi árið 2007. Chelsea tók þá á móti Aston Villa og vann risasigur, 7-1.

Lampard bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn vallarins og skoraði fjögur af sjö mörkum Chelsea í leiknum. Chelsea var ríkjandi Englandsmeistari þennan vetur en varð að sjá á eftir titlinum í hendur Manchester United um vorið.

Lampard var á sínum tíma mikill markaskorari og er markahæstur í sögu Chelsea með 211 mörk í öllum keppnum. Hann er eini miðjumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora yfir 150 mörk í deildinni. Hann skoraði 177 mörk í úrvalsdeildinni fyrir West Ham, Chelsea og Manchester City.