Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Á fjórða hundrað skjálftar mældust í gær

29.03.2020 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Mikil jarðskjálftavirkni var á Reykjaneshrygg og í grennd við fjallið Þorbjörn við Grindavík í gær. Alls mældust á fjórða hundrað skjálftar á svæðunum tveimur.

Skömmu fyrir kl. 15 í gær hófst jarðskjálftahrina rétt norðan við Eldey á Reykjaneshrygg. Yfir 100 skjálftar hafa mælst, þar af fimm yfir 3,0 að stærð. Tveir stærstu skjálftarnir voru 3,5. Fljótlega dró úr virkni í hrinunni, en þó mælast áfram skjálftar á svæðinu. Jarðskjálftahrinur eru þekktar á svæðinu og voru svipaðar hrinur í janúar 2020 og nóvember 2019.

Í gær mældust rúmlega 200 skjálftar, langflestir undir 1,0 að stærð, í nágrenni við Þorbjörn. Tveir stærstu voru 2,8 og 2,9 að stærð og varð þeirra vart í Grindavík. Nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðustu vikur í tengslum við landris á svæðinu.

Óvissustig vegna landriss er enn í gildi hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.