Á fimmta hundrað hraðakstursbrot við skóla

20.09.2019 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með aukið eftirlit síðan grunnskólar tóku aftur til starfa í síðasta mánuði. Meðal annars hefur verið notast við ómerkta lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði við eftirlitið.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að fram til þessa hefur hraðamyndavélin skráð 419 hraðakstursbrot þar sem ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi. Við skólana þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst hefur meðalhraði hinna brotlegu verið 44 km/klst. Þá hefur 45 bílum verið ekið á 50 km/kst eða hraðar og sá sem hraðast ók mældist á 69 km/klst. Fleiri dæmi voru um ökumenn sem óku á meira en tvöföldum leyfðum hámarkshraða.

„Niðurstaðan sýnir að ökumenn verða að gera betur og því er full ástæða til að minna þá á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi í námunda við skólana þar sem margir eru á ferli, meðal annars nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu. Allir ættu að geta fallist á mikilvægi þess að leyfður umferðarhraði sé virtur í kringum skólana og við þær leiðir sem börnin okkar nota til að komast til og frá skólum og frístundastarfi,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi