
Á félag í Bretlandi til að halda utan um arf
Anna Sigurlaug segist með yfirlýsingunni vilja varpa ljósi á fjármál sín. „Ég veit að í pólitíkinni og umræðunni í kringum hana er allt gert tortryggilegt og í því andrúmslofti sem er í dag er það mjög auðvelt, ekki síst þegar kemur að fjármálum. Þess vegna er bara ágætt að þetta sé allt skýrt,“ skrifar hún.
Kæru vinir.Frá því að Sigmundur byrjaði í pólitík hef ég þurft að hlusta á og frétta af umræðu um persónuleg mál mín og...
Posted by Anna Sigurlaug Pálsdóttir on 15. mars 2016
Anna Sigurlaug er dóttir Páls Samúelssonar sem átti og rak Toyota-umboðið undir nafninu P. Samúelsson. Árið 2005 seldi fjölskyldan fyrirtækið til Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns en kaupverðið var sagt trúnaðarmál. Það skaut þó upp kollinum í dómi Hæstaréttar vegna skattamáls en þar kom fram að það hefði verið 5,3 milljarðar.
Hún segir í færslu sinni að félagið hafi verið skráð erlendis því að þegar það var stofnað hafi hún og Sigmundur Davíð búið í Bretlandi og óljóst hvort þau myndu búa þar áfram eða flytja til Danmerkur. Anna Sigurlaug segir enn fremur að alveg frá því að eiginmaður hennar hóf afskipti af stjórnmálum hafi hún ekki fjárfest í íslenskum fyrirtækjum „til að forðast árekstra vegna þess“.
Anna segist hafa treyst á ráðgjöf fjármálamanna fyrir hrunið og eins og margir aðrir hafi hún tapað töluverðu fé á bönkunum. Þar sé hún í sömu stöðu og fjöldi annarra Íslendinga. „Það er alveg ljóst að ég sit uppi með það tap og hef aldrei gert ráð fyrir að fá það bætt. “ Samkvæmt kröfuskrá slitastjórnar Landsbankans gerði félag undir nafni Wintris Inc 174 milljónir króna kröfu í þrotabú bankans. Fram kom í frétt Viðskiptablaðsins árið 2013 að Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug ættu rúmlega 1,1 milljarð umfram skuldir.
LEIÐRÉTT: Í upphaflegri frétt var sagt að krafan hafi verið í evrum - það er ekki rétt, hún er í krónum.