Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á ekki að dæma fatlaða foreldra strax úr leik

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Freyja Haraldsdóttir fagnar dómi Hæstaréttar í morgun. Þetta er „viðurkenning á því að það eigi ekki að dæma fatlaða foreldra strax úr leik og allir eiga rétt á tækifæri til að sanna sig,“ segir Freyja. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Barnaverndarstofu hefði verið óheimilt að hafna umsókn Freyju um að taka að sér fósturbarn án þess að gefa henni kost á að sækja námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að taka að sér fósturbörn.

Nokkuð fjölmennt var í dómssal. Margir fögnuðu niðurstöðunni mjög og sögðu hana hafa mikla þýðingu fyrir fatlað fólk og réttindi þess til að verða fósturforeldrar. Því er viðbúið að umsóknum um það fjölgi. 

Fimm ár eru liðin frá því að Freyja óskaði eftir að gerast fósturforeldri. Við spurðum hana hvaða þýðingu niðurstaða Hæstaréttar hefði fyrir hana.

„Hún náttúrulega fyrst og fremst staðfestir að fatlað fólk á rétt á eðlilegri málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Þetta mál snerist um að ég fengi sama mat og sama matsferli og annað fólk. Þannig að það er rosalegt stórt mál og getur gilt á svo mörgum sviðum. Auðvitað er þetta líka viðurkenning á því að það eigi ekki að dæma fatlaða foreldra strax úr leik og allir eiga rétt á tækifæri til að sanna sig. Vonandi heldur ferlið óraskað áfram. Það er kominn tími til. Þetta er búið að taka fimm ár. Þetta er góður dagur,“ segir Freyja. „Ferlið á að verða þannig að ég haldi áfram í frekara mat sem fer fram á námskeiði Barnaverndarstofu. Það er matsnámskeið og undirbúningsnámskeið fyrir fólk sem sækir um að verða fósturforeldrar og hefur fengið jákvæða umsögn hjá sínu sveitarfélagi eins og var í mínu tilviki.“

Fyrsta skrefið er að fá umsögn hjá sveitarfélagi, sem í tilviki Freyju er Garðabær. Ef umsögnin er jákvæð er næsta skref að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu. Freyju var meinað að sækja það.

Er dómurinn fordæmisgefandi fyrir annað fatlað fólk?

„Ég treysti því að þetta tryggi okkar réttindi enn frekar þegar kemur að réttlátri málsmeðferð, að við séum ekki dæmd á grundvelli fordóma á neinu sviði. Það er ekki öruggt fyrir fatlað fólk að búa í samfélagi þar sem við getum verið dæmd úr leik á grundvelli líkamlegs atgervis eða greindar,“ segir Freyja. 

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður Freyju fagnar jafnframt niðurstöðunni. Hann telur að dómurinn sé fordæmisgefandi.

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV