Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á annað hundrað týndu lífinu í hryðjuverkaárás

25.12.2019 - 08:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Hryðjuverkamenn úr röðum öfgaíslamista myrtu 35 óbreytta borgara, þar af 31 konu, í einni mannskæðustu hryðjuverkaáras sem gerð hefur verið í þeirri vargöld sem ríkt hefur í Búrkína Fasó síðustu fimm ár. Þá féllu sjö stjórnarhermenn og um 80 úr hópi hryðjuverkamannanna í árásinni, sem gerð var samtímis á herstöð í Soum-héraði í norðanverðu landinu og þorpið sem hún stendur við, samkvæmt upplýsingum frá hernum. Tveggja sólarhringa þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu og jólahaldi aflýst.

 „Fólkið, aðallega konur, var að sækja sér vatn og var myrt með köldu blóði af hryðjuverkamönnunum þegar það reyndi að flýja,“ segir Remis Dadjinou, talsmaður ríkisstjórnarinnar í yfirlýsingu. „Við verðum að sýna hluttekningu okkar með fólkinu í landinu, og því verður öllum fánum flaggað í hálfa stöng í tvo sólarhringa og öllu opinberu jólahaldi er aflýst.“

Mikill meirihluti íbúa í Búrkína Fasó er íslamstrúar en um fimmtungur játar kristna trú. Illvirkjarnir létu til skarar skríða í morgunsárið þegar þeir óku inn í þorpið á mótorhjólum, tugum saman. Bardagar stóðu í nokkrar klukkustundir áður en árásinni var loksins hrundið þegar liðsauki barst, bæði á jörðu niðri og úr lofti. Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér enn sem komið er, hryðjuverk síðustu fimm ára hafa iðulega verið rakin til mis formlegra hreyfinga sem ýmist kenna sig við Íslamska ríkið eða Al Kaída.