Á annað hundrað starfsmenn Bláa lónsins missa vinnuna

26.03.2020 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Peter Stewart
Bláa lónið hefur sagt upp 164 starfsmönnum, Þetta er gert til að bregðast við þeim afleiðingum sem heimsfaraldur COVID-19 hefur haft á ferðaþjónustu. Í febrúar störfuðu 764 starfsmenn hjá fyrirtækinu.

Fyrirtækið tilkynnti fyrr í mars að öllum starfsstöðvum hefði verið lokað til að minnsta kosti loka aprílmánaðar. „Með þessum aðgerðum og tímabundnum úrræðum stjórnvalda um hlutastörf verður þess freistað að verja störf þeirra 600 starfsmanna sem munu starfa hjá fyrirtækinu eftir þessar aðgerðir. Áætlað er að rúmlega 400 starfsmönnum verði boðið upp á að nýta sér hin tímabundnu úrræði enda verður starfsemi félagsins í algjöru lágmarki á þeim tíma sem þau eru í boði," segir í tilkynningu frá Bláa lóninu. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV