Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Á annað hundrað bændur skoða kaup á varaaflstöðvum

24.01.2020 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Á annað hundrað bændur hafa sýnt því áhuga að kaupa varaaflstöðvar til að lenda ekki í margra sólarhringa rafmagnsleysi eins og gerðist á dögunum. Búnaðarsamband Eyjafjarðar leitar nú tilboða í rafstöðvar fyrir bændur víða um land.

Í kjölfar óveðursins í desember, þar sem fjöldi bæja á Norðurlandi var án rafmagns í langan tíma, fór Búnaðarsamband Eyjafjarðar að leita tilboða í nokkrar rafstöðvar fyrir bændur á þeirra starfssvæði.

Yfir hundrað bændur lýst yfir áhuga

Þetta spurðist út og nú hafa bændur alls staðar að af landinu haft samband að sögn Sigurgeirs Hreinssonar, framkvæmdastjóra búnaðarsambandsins. „Niðurstaðan varð að þetta dreifðist á landsvísu. Og núna eru yfir hundrað bændur búnir að skrá sig og lýsa yfir áhuga á að vera með.“

Viðræður við nokkur fyrirtæki um kaup

Sigurgeir segir þá eiga í viðræðum við 12-13 fyrirtæki sem vilji gera tilboð í rafstöðvar og þar sé verið að meta kosti og galla. Varaaflstöðvar kosti frá hálfri milljón upp í eina og hálfa, eftir stærð og búnaði. „Þannig að þetta er svona á lokastigi, á að skýrast í næstu viku.“ 

Reynslan sýni að varaafl er nauðsynlegt

Langflestir bændur sem lentu í ógöngum í desember ætli að kaupa sér rafstöð. En sem betur fer búi flestir við öruggt rafmagn og dæmi séu um sveitir þar sem ekki hafi þurft að nota varaafl í 30 ár. En reynslan undanfarið sýni að varaafl er nauðsynlegt. „Svo hef ég svosem nefnt það að það eru aðrar náttúruhamfarir en óveður, sem geta valdið því að það verður rafmangsleysi. Við þekkjum nú eldgos og annað slíkt. Þannig að það eru ansi margir sem hafa valið að eiga stöð, þó að í aðra röndina sé þetta óarðbær fjárfesting og notuð sjaldan.“