Á 130 km hraða með laust barn í aftursætinu

26.07.2019 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði í gærkvöldi ferðamann sem mældist á hátt í 130 kílómetra hraða. Þegar lögreglumaður var að boða ökumann yfir í lögreglubifreiðina veitti hann því athygli að í aftursæti bifreiðarinnar sátu þrír farþegar. Í ljós kom að einn þeirra sat undir þriggja ára barni og barnið því laust í bifreiðinni.

Ökumaðurinn fékk væna sekt fyrir hraðaksturinn auk þess sem foreldrar barnsins voru sektuð fyrir að vera ekki með barnið í viðeigandi barnabílstól. Hann var þó til staðar í bílnum.

Hraðakstur á Bræðslu

Lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þar er einnig greint frá því að nokkuð hafi verið um það í aðdraganda helgarinnar að ungir ökumenn á leið á Borgarfjörð eystra á hátíðina Bræðsluna hafi stigið heldur þungt á inngjöfina og verið stöðvaðir vegna hraðaksturs.

Vekja athygli á sauðfé meðfram vegum

Talsvert er um að ekið hafi verið á sauðfé í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Hvetur hún ökumenn til að virða hámarkshraða og veita því athygli að víða séu kindur á beit meðfram vegum. Hátt gras geti gert ökumönnum erfitt fyrir að bregðast við þar sem kindurnar geti leynst þar.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi