Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

900 milljarða hagnaður Rio Tinto

26.02.2020 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Rio Tinto var rekið með 7,0 milljarða dollara hagnaði í fyrra. Það jafngildir um 900 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins sem var birtur í morgun. Álframleiðsla fyrirtækisins á heimsvísu minnkaði um tvö prósent á síðasta ári. Minnkandi álframleiðslu Rio Tinto má að mestu leyti rekja til samdráttar í framleiðslu álversins í Straumsvík og í Kitimat í Kanada. Hérlendis þurfti að loka kerskála í fyrra vegna ljósboga. Við það dró verulega úr framleiðslu.

Hagnaður fyrirtækisins nam andvirði nærri 900 milljarða króna. Það er álíka upphæð og gert var ráð fyrir á tekjuhluta fjárlaga íslenska ríkisins í ár. Arðgreiðslur til hluthafa Rio Tinto hljóða upp á um 800 milljarða króna.

Erfiðleikar í rekstri álversins í Straumsvík og versins í Kitimat kostuðu Rio Tinto 68 milljónir dollara í fyrra, andvirði um 8,7 milljarða króna.

Taprekstur hefur verið á starfseminni hérlendis. Í ársreikningi Rio Tinto er tiltekið að fyrirtækið hafi fyrr í þessum mánuði hafið úttekt á starfseminni í Straumsvík. Þar sé verið að kanna framtíðarhorfur álversins með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni þess. Í þeirri úttekt er allt undir, þar á meðal að draga úr starfseminni og að loka álverinu. Rio Tinto stefnir að því að ljúka þessari úttekt á fyrri hluta árs. Álverið í Straumsvík er annað tveggja álvera Rio Tinto þar sem slík úttekt er nú í gangi. Hitt er Tiwai Point álverið á Nýja-Sjálandi þar sem sambærileg úttekt hófst í október

Álverið í Straumsvík er annað tveggja fyrirtækja Rio Tinto sem er tilgreint í söluferli í ársreikningnum. Hitt er Rössing úraníumnáman í Namibíu. 

Farið er yfir fjárhagsleg áhrif tilrauna Rio Tinto á síðustu árum til að selja álverið í Straumsvík og samtímis því rafskautaverksmiðju í Hollandi og álflúríðverksmiðju í Svíþjóð. Þegar gert var ráð fyrir sölu þessara tveggja starfseininga árið 2018 var útlit fyrir að söluverðið yrði lægra en bókfært verð. Það leiddi til verðmætisrýrnunar í ársreikningi Rio Tinto 2018 upp á 123 milljónir dollarar. Ekkert varð af þeirri sölu og eftir frekara endurmat var 109 milljóna dollara virðisrýrnun skráð vegna þessara þriggja fyrirtækja í ársreikningi Rio Tinto vegna síðasta árs. Samanlögð virðisrýrnun er því 232 milljónir dollara, andvirði tæpra 30 milljarða króna.

Leiðrétt 11:52 með upplýsingum um hagnað og arðgreiðslur.