Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

90 greindir með COVID-19 – einn lagður inn á sjúkrahús

11.03.2020 - 14:15
Mynd: RÚV / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
90 hafa verið greindir með COVID-19 Kórónaveiruna og 700 eru í sóttkví. Einn hefur verið lagður inn á sjúkrahús en ekki er nánar vitað um líðan hans eða einkenni. Þetta er þriðji einstaklingurinn sem er lagður inn á sjúkrahús vegna veirunnar. Þetta sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, á blaðamannafundi nú rétt í þessu.

Hrakaði skyndilega - einkenni kölluðu á innlögn

Maðurinn var áður greindur með veiruna og hafði verið í einangrun. Heilsu hans hrakaði skyndilega og hann fór að finna fyrir einkennum sem kölluðu á innlögn. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis, segir að maðurinn sé á sjötugsaldri. Hann hefur ekki nákvæmar upplýsingar um líðan hans en segir að enginn sé lagður inn án þess að vera sannarlega veikur.

Þórólfur segir það að leggjast inn á spítala vera ákveðið merki um alvarleika veikinda mannsins en ekki sé hægt að leggja mat á það sem stendur. „Það er ekki mikið meira um það að segja. Við eigum eftir að fá betri upplýsingar frá sjúkrahúsinu um það í hverju einkennin felast og alvarleika. “

Skiptir ekki máli hversu margir, heldur hverjir

Þórólfur segir að flestir séu með væg einkenni en nokkrir með öllu verri einkenni en hafi ekki þurft að leggjast inn. Langflestir af þeim sem greindir eru voru að koma frá Norður-Ítalíu og Austurríki. Fjórir voru að koma frá Sviss og einn frá Asíu. Fimmtán smit eru innanlandssmit og fjögur eru svokölluð þriðja stigs smit. Enn er óvíst með uppruna hjá tveimur. Um 700 einstaklingar eru í sóttkví og 830 sýni hafa verið tekin. 

Ekki skipti máli hversu margir fái veiruna heldur hverjir fái hana. „Ef flestir sem fá þessa veiru er fólk á góðum aldri í góðu ásigkomulagi þá er það í lagi. Versti hópurinn er sá sem getur fengið alvarlega í sýkingu og það er það sem aðgerðirnar okkar ganga út á.“

Hér má fylgjast með öllum nýjustu tíðindum af COVID-19 veirunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.