Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

90 fleiri sólarstundir í maí í ár en í fyrra

31.05.2019 - 20:16
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Í maí voru níutíu fleiri sólarstundir í Reykjavík en í fyrra. Austfirðingar eru hins vegar ekki jafn heppnir - maí hefur verið mun kaldari en í fyrra á Egilsstöðum.

Tvær glerkúlur eru á þaki Veðurstofunnar og þær mæla sólarstundir. Utan um kúlurnar er málmskífa og í hana er þrædd pappírsörk. Sólin varpar svo geislum sínum á kúluna frá mismuandi horni eftir því hversu hátt eða lágt á lofti hún er. Glerkúlan safnar sólarljósinu saman í einn punkt og brennir þannig gat á pappírsörkina.

„Kúlan virkar sem sagt þannig að hún magnar upp sólarljósið eins og stækkunargler og þá brennist geislinn í blaðið og svo teljum við stundirnar. Þá sjáum eftir því við hversu mikið er brunnið, stundum er ekkert brunnið, hversu mikið sólin hefur skinið þann daginn,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

Í gær var vart ský á himni í höfuðborginni.

„Þar var sólin eiginlega allan sólarhringinn á lofti nema síðustu tvær klukkustundir,“ segir Sigríður.

Hversu margar sólarstundir hafa verið í maí?

„Það eru komnar 227 stundir og það eiga einhverjar eftir að bætast við í dag, kannski um það bil tíu. Sjáum til hvað það verður skýjað í,“ segir Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands.

Það stefnir því í hátt í 240 sólarstundir í maí í Reykjavík. 

„Þetta er mun meira en í fyrra. Þá voru 150 stundir í maí. Þetta er alveg langt frá einhverju meti en það var t.d. árið 2015 þá voru töluvert fleiri sólskinsstundir í maí. En þá var talsvert öðru vísi tíð. Þá var mun kaldara,“ segir Kristín.

Í maí í fyrra var metúrkoma. En í maí í ár var meðalhitinn var 7,7 stig og tveimur gráðum meiri en í fyrra. 

En hvernig er þetta á Egilsstöðum?

„Það er einmitt allt öðru vísi en var í fyrra hjá þeim. Þá voru þeir vel yfir meðalhita. Það var nánast þremur gráðum hlýrra þar heldur en í meðallagi í fyrra en þeir eru örlítið  undir meðalhitanum núna,“ segir Kristín.

Getum við eitthvað spáð fyrir, vegna þessa fjölda sólarstunda, hvernig sumarið verður?

„Nei, það er alveg ómögulegt að segja,“ segir Kristín.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV