9 þúsund ferðamenn í 500 manna bæ

17.07.2019 - 00:33
Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Harald Kolseth
Norski smábærinn Olden, á suðurhluta Nordfjorden, er alla jafna hinn rólegasti en yfir sumartímann er hann vinsæll viðkomustaður skemmtiferðaskipa. Í gær tuttugufaldaðist íbúafjöldinn er tvö skemmtiferðaskip lögðust að bryggju.

Alls voru um níu þúsund ferðamenn um borð í skipunum tveimur og um tvö þúsund í áhöfn þeirra. Þar með jókst íbúafjöldinn í Olden um tvö þúsund prósent.

Að sögn Sølve Oldeide, sem starfar við ferðaþjónustu í bænum, setur þetta óneitanlega svip sinn á bæinn. Flestir halda ferðamennirnir í skoðunarferðir um Nordfjord og Sogn og Firðafylki en um 80 rútur biðu ferðamannanna reiðubúnar til að ferja þá um svæðið.

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Harald Kolseth

Oldeide segir innviði góða til að ráða við þessa miklu umferð og þetta sé ekkert nýtt. Í fyrra komu tæplega níu þúsund ferðamenn í Olden með þremur skemmtiferðaskipum á einum degi.

Lögregla veitir aðstoð bæjaryfirvöldum við að hafa umsjón með ferðamannastraumnum og segir hann samstarfið ganga vel.

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Harald Kolseth
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi