Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

9 milljarða aukaútgjöld vegna atvinnuleysis

06.09.2019 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að útgjöld vegna aukins atvinnuleysis aukist um 9 milljarða króna á næsta ári. Hækkun útgjalda til elli- og örorkulífeyrisþega setur verulegan þrýsting á útgjöld ríkissjóðs sem mæta þarf með skattheimtu eða niðurskurði í öðrum málaflokkum.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2020, sem kynnt var í morgun, kemur fram að útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukist um 18 milljarða króna, eða um 8 prósent að raunvirði. Mestur hluti aukningarinnar er rakinn til vaxandi atvinnuleysis því útgjöld til atvinnuleysisbóta aukast um 9 milljarða króna. Alls verða heildarútgjöld til atvinnuleysisbóta 26,6 milljarðar á næsta ári.

Byggist þetta á spá hagstofunnar sem gerir ráð fyrir 3,8 prósenta atvinnuleysi á næsta ári. Áföll í ferðaþjónustu og kólnun hagkerfisins ráða þar mestu.

Útgjöld almannatrygginga aukast um 8 milljarða. Er það til komið vegna endurútreiknings Tryggingastofnunar samkvæmt úrskurði Umboðsmanns Alþingis og dómi Landsréttar. Tekið er fram í frumvarpinu að mikil aukning útgjalda stafi af vaxandi framlögum til elli- og örorkulífeyrisþega. Er þar um að ræða sambland af kerfisbreytingum, bótahækkunum og fjölgun bótaþega.

„Haldi slík þróun áfram mun hún setja aukinn þrýsting á útgjöld ríkissjóðs, sem að öðru óbreyttu verður að fjármagna með aukinni skattheimtu eða með lækkun framlaga til annarra útgjalda,“ segir í frumvarpinu.

 

Fæðingarorlof verður lengt í skrefum í 12 mánuði og hækka skerðingarmörk til barnabóta. Er kostnaður ríkissjóðs vegna þessa 2 milljarðar króna og verða heildarútgjöld vegna fæðingarlofs 15,5 milljarðar og 13,1 milljarður vegna barnabóta.