89 ný smit síðasta sólarhringinn

25.03.2020 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
89 hafa greinst með COVID-19 síðasta sólarhringinn. 1.069 sýni voru tekin á þessu tímabili og reyndust 16 prósent sýna hjá veirufræðideildinni jákvæð. 56 hefur náð sér af veikindum, 9.013 eru í sóttkví og 2.096 hafa lokið sóttkví. 15 eru á sjúkrahúsi, þar af eru tveir á gjörgæslu.

Þetta kemur fram í nýjum tölum á covid.is og á vef Landspítalans. 244 starfsmenn Landspítalans eru í sóttkví og 32 eru í einangrun.  Tíu sjúklingar eru í sóttkví.

Athugasemd: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var stuðst við súlurit á vefnum en í seinni útgáfunni við tölur sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, nefndi á stöðufundi í dag.

84 hafa greinst með COVID-19 á Suðurlandi og þar eru 1.178 í sóttkví. Það er talsverð fjölgun frá því í gær og má eflaust að miklu leyti rekja til Vestmannaeyja.

Á Norðurlandi vestra hafa 16 verið greindir með veiruna en í Húnaþingi vestra hefur verið gripið til hertra aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Af 737 sem hafa sýkst af kórónuveirunni er vitað um uppruna 543 sýkinga - 220 eru erlendis frá og 323 hafa sýkst innanlands. Ekki er vitað um uppruna 194 sýkinga.

Langflestir þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna eru á aldrinum 40 til 60 ára. 23 eru á áttræðisaldri, einn á níræðisaldri og einn á tíræðisaldri.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV