Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

85 prósent af miðhálendinu undir þjóðgarð

22.07.2019 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
85 prósent af miðhálendinu myndu falla innan marka þjóðgarðs á miðhálendinu, samkvæmt tillögum nefndar á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Samkvæmt tillögunni myndi Vatnajökulsþjóðgarður falla að öllu leyti undir nýjan þjóðgarð.

Þverpólítísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra í apríl 2018 . Nefndin hefur birt tillögur til umsagnar jafnóðum og hefur nú birt þann hluta sem snýr að mörkum þjóðgarðsins, skiptingu landsvæða í verndarflokka auk innviða þjóðgarðsins.  

„ Þær meginlínur sem nefndin hefur kynnt núna gera ráð fyrir þjóðlendunum Íslands inn í þjóðgarðinn sem gerir það að verkum að Vatnajökulsþjóðgarður ásamt talsvert stærra svæði til vesturs á hálendinu falli innan þjóðgarðsins,“ segir Óli Hallgrímsson, formaður nefndar um stofnun Hálendisþjóðgarðs. 

Fengið fjölda ábendinga

Nefndin gerir ekki ráð fyrir að stofnun Hálendisþjóðgarðs hafi áhrif á nýlega skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. Útfærsla þjóðgarðsmarka ætti ekki að hafa áhrif á tilnefninguna. 
Meðal þess sem nú er til umsagnar eru flokkanir landsvæða í verndarflokka. Óli segir að nú þegar hafi komið fram þó nokkrar ábendingar í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. 

„Í grófum dráttum má segja að það sé lögð áhersla á að viðhalda þeirri friðlýsingu þeirra svæða sem fyrir er ásamt því að stækka svæðið til vesturs á hálendinu, en jafnframt taka ríkulega tillit til hefðbundinna sjálfbærra landnytja. Við höfum fengið mjög góðar og miklar athugasemdir frá landeigendum, bændum og öðrum sem nýta landið,“ segir Óli.

Frestur til að skila inn umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda er til þrettánda ágúst nk.