Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

85 bjargað af Miðjarðarhafi

10.08.2019 - 02:23
In this photo released Friday, Aug. 9, 2019, the SOS Mediterranee rescue team distributes life-jackets to men, women and children on a rubber boat in distress off Libya, before taking them onboard the Ocean Viking rescue ship. Italian Interior Minister Matteo Salvini, who has triggered a government crisis in Italy, said he is preparing to sign a ban on the ship's entry into Italian waters. (Photo SOS Mediterranee/MSF via AP)
Liðsmenn SOS Méditerranée útdeila björgunarvestum til flóttafólksins á gúmbátnum  Mynd: AP
Áhöfn norska björgunarskipsins Ocean Viking, sem gert er út af samtökunum SOS Méditerranée og Læknum án landamæra, bjargaði í gær 85 flóttamönnum af gúmmituðru á Miðjarðarhafi. Ekki liggur fyrir hvar skipið fær að sigla til hafnar, en það verður að minnsta kosti ekki í Noregi, segir utanríkisráðherra Noregs.

Í tilkynningu frá Læknum án landamæra segir að fólkinu hafi verið bjargað af gúmbát um 60 sjómílur frá Líbíuströnd. Gúmbáturinn sást fyrst úr lofti að kvöldi fimmtudags en komið var framyfir hádegi á föstudag þegar áhöfn Ocean Viking fann hann og kom fólkinu um borð. 25 í hópnum eru yngri en 18 ára og yngsta barnið aðeins ársgamalt. Samkvæmt frétt AFP er fólkið frá Senegal, Malí, Fílabeinsströndinni og Súdan.

Salvini segir Norðmönnum að taka við flóttafólkinu

Hlúð er að fólkinu um borð í Ocean Viking, sem áður gegndi hlutverki birgðaskips við norsku olíupallana. Sem fyrr segir er enn óljóst hvert kúrsinn verður tekinn. Á Ítalíu er bannað að sigla til hafnar með flóttafólk af Miðjarðarhafi, að viðlögðum himinháum sektum.

Skömmu eftir að fréttir bárust af björguninni í dag sendi Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, norsku ríkisstjórninni skilaboð á Twitter þar sem hann varaði við afleiðingum þess að skipstjóri Ocean Viking fylgdi fordæmi hinnar þýsku Carolu Rackete, skipstjóra Sea-Watch 3, og hundsaði bannið. Krefst hann þess að norsk stjórnvöld axli sjálf ábyrgð á því fólki, sem bjargað hefur verið um borð í norskt skip.

Vill að fólkið verði flutt aftur til Afríku

Jøran Kallmyr, utanríkisráðherra Noregs og þingmaður Framfaraflokksins, sem einnig fer með málefni innflytjenda, segir þetta ekki koma til greina. Hann vill að fólkið verði flutt aftur til Afríku, annað hvort til Túnis eða Líbíu.

„Það á ekki að flytja þetta fólk til Evrópu, því þá breytist þessi aðgerð úr björgunaraðgerð í framlengingu á flóttamannaleiðinni," segir Kallmyr. „Við höfum séð að í þessum bátum er oft fólk frá Pakistan, Bangladess, Egyptalandi og Túnis, og það hefur ekkert til Evrópu að gera, það er ekki þetta fólk sem á að fá þar hæli," segir ráðherrann.