Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

84% íbúða seldust undir ásettu verði

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Alls seldust 84 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði í apríl og einungis 10% íbúða seldist yfir ásettu verði. Verð minni íbúða hefur tvöfaldast á síðustu 10 árum.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Í apríl í fyrra seldust 64 prósent íbúða fyrir minna en ásett verð og er þetta því 15% aukning. Þá seldust 17% íbúða yfir því verði sem sett var.

Eftirspurn eftir minni íbúðum heldur áfram að aukast, það sem af er ári hafa 24% viðskipta með  eins og tveggja herbergja íbúðir verið yfir ásettu verði en einungis 7% íbúða með fimm herbergi eða stærri.

Minni íbúðir hafa ríflega tvöfaldast í verði á undanförnum áratug en stærri íbúðir hafa hækkað um 70%.

Mikill meirihluti verður áfram á leigumarkaði

Íbúðalánasjóður, í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið Zenter, gerði könnun um leigumarkaðinn fyrir skömmu þar sem kom fram að 88% leigjenda taldi að þeir yrðu áfram á leigumarkaði eftir hálft ár en einungis 9% að þeir verði komnir af leigumarkaði.

Aðeins 16 prósent þeirra sem enn búa í foreldrahúsum segjast munu færa sig yfir á leigumarkað á næstu 6 mánuðum en í hópi þeirra sem eiga húsnæði einvörðungu 2%.

Vestfirðir að taka við sér

Húsnæðismarkaðurinn á Vestfjörðum hefur tekið við sér á undanförnum misserum eftir nokkra lægð. Árleg velta fasteigna þar var hærri en á sambærilegum svæðum. Talsverð hækkun hefur orðið á söluverði eigna á Vestfjörðum.