Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

830 milljóna gjaldþrot S-14

12.01.2017 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/patrickgage
Rúmlega 830 milljóna króna kröfum var lýst í þrotabú eignarhaldsfélagsins S-14, sem lýst hefur verið gjaldþrota. S-14 var í eigu hjónanna Guðlaugar Matthíasdóttur og Birgis Þórs Runólfssonar, dósents í Hagfræði við Háskóla Íslands. Hann var um tíma varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands og sat í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík.

Skiptum í búinu lauk í lok desember. Engar eigir fundust í búinu og fæst því ekkert upp í kröfurnar, vexti af þeim og kostnað eftir að eignarhaldsfélagið var lýst gjaldþrota.

DV sagði frá því árið 2011 að félög Birgis Þórs og Guðlaugar hafi skuldað Sparisjóðnum í Keflavík rúmlega 436 milljónir króna, í september 2008. Þá var Birgir Þór í stjórn sparisjóðsins.

Samkvæmt stofntilkynningu um stofnun S-14, var félagið stofnað utan um fjárfestingar, rekstur eigmarhaldsfélaga og lánastarfsemi. Eignarhaldsfélagið skilaði síðast ársreikningi fyrir árið 2009.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV