Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

80 ár frá upphafi seinni heimsstyrjaldar

01.09.2019 - 04:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Tuttugu mínútur í fimm að morgni 1. september 1939 féllu sprengjur úr lofti á pólsku borgina Wielun. Nokkrum mínútum síðar hleypti herskip sem var orðið úrelt fyrir upphaf fyrri heimsstyrjaldar af fyrstu skotunum á pólska herstöð við Danzig. Leifturstríð Þjóðverja var ný tegund stríðs með áherslu á skjóta landvinninga sem byggðu á samspili flughers, skriðdreka og stórskotaliðs. Stríðið breiddist út um nær allan heim. Og almennir borgarar voru hvergi hultir.

Í dag eru 80 ár liðin síðan seinni heimsstyrjöld hófst. Stríðið sem braust út á haustdögum 1939 varð það mannskæðasta í sögunni. Áætlað er að 70 til 85 milljónir hafi farist af völdum stríðsins, frá 1939 til 1945. Þar af var aðeins um þriðjungur hermenn sem féllu í orrustum, 21 til 26 milljónir. Öllu fleiri voru almennir borgarar sem fórust af völdum hernaðaraðgerða eða voru hreinlega myrtir, almennt er áætlað að það séu um 30 milljónir.  Að auki er talið að nítján til 28 milljónir hafi farist úr hungri eða sjúkdómum.

Mynd:  / 
Fréttir Ríkisútvarpsins 1939 um innrásina í Pólland.

Almennt er litið svo á að herskipið Schleswig-Holstein hafi hleypt af fyrstu skotum seinni heimsstyrjaldar. Fallbyssum þess var þá beint að herstöð Pólverja nærri Danzig. Hún var þá þýsk en pólska ríkið, sem var endurreist eftir lok fyrri heimsstyrjaldar, aðskildi hana frá Þýskalandi. 

Þjóðverjar hófu árásir af landi, láði og legi skömmu fyrir klukkan fimm 1. september 1939. Innrásin í Pólland átti sér langan aðdraganda. Þýska ríkið undir forystu Adolfs Hitlers hafði næstu misserin á undan lagt undir sig hvert landsvæðið á fætur öðru. Austurríki var innlimað í Þýskaland. Bretar og Frakkar samþykktu án samráðs við stjórnvöld í Tékkóslóvakíu að þau síðarnefndu yrðu að láta Súdetahéruð af hendi, þar var fólk af þýskum uppruna fjölmennt.

Minnugir blóðbaðs fyrri heimsstyrjaldar vildu ráðamenn í Evrópu forðast annað stríð og gengu að kröfum Þjóðverja. Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, sagði að eftirgjöf Súdetahéraða tryggði „frið á okkar tímum“. Honum skjátlaðist herfilega. Innan við ári síðar voru Þjóðverjar búnir að hernema stærstan hluta Tékkóslóvakíu og láta nágrannaríkjum eftir hluta landsins.

Mynd: Tímarit.is / Samsett mynd
Fréttir íslensku dagblaðanna í byrjun september 1939.

Sífellt ófriðlegra varð eftir því sem leið á sumarið 1939 og teningunum var kastað síðla í ágúst. Þá tilkynntu þýsk og sovésk stjórnvöld um samning sín á milli. Þau hétu því að ráðast ekki hvort á annað. Það var opinbera tilkynningin. Bak við tjöldin skiptu þau milli sín landsvæðum milli Þýskalands og Sovétríkjanna. Þjóðverjar gátu því ráðist inn í Pólland án þess að óttast mótaðgerðir Sovétmanna sem réðust nokkru síðar inn í austurhluta landsins. Þýskir og sovéskir herir höfðu ekki verið í Póllandi nema örfáa daga þegar tekið var til við að myrða ákveðna þjóðfélagshópa. Herforingjar, menntamenn, klerkar og aðrir þeir sem nýjum valdhöfum þóknaðist ekki sættu árásum hvort sem þeir lentu á yfirráðasvæði Þjóðverja eða Sovétmanna. Þjóðverjar höfðu þegar hafið ofsóknir gegn gyðingum á yfirráðasvæðum sínum fyrir stríð og juku þær til mikilla muna eftir landvinninga sína í austanverðri Evrópu.

Innrás verður að heimsstyrjöld

Bretar og Frakkar lýstu stríði á hendur Þjóðverjum 3. september þegar þeir fengu engin svör við kröfum sínum um að þýski herinn færi frá Póllandi. Næstu daga lýstu stjórnvöld í Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður Afríku og Kanada yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Stríð Þjóðverja og Pólverja var orðið að heimsstyrjöld. 

Enginn kom þó Pólverjum til varnar og mánuði eftir að innrás Þjóðverja hófst var Pólland algjörlega á valdi þeirra og Sovétmanna. Næstu mánuði lögðu Sovétmenn Eystrasaltsríkin undir sig og hófu innrás í Finnland. Þjóðverjar áttu eftir að hernema stærstan hluta Evrópu, svo sem Danmörku, Noreg, Belgíu, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Júgóslavíu og Grikkland. Í júlí 1941 höfðu Þjóðverjar samninginn við Sovétmenn frá 1939 að engu. Þeir réðust inn í Sovétríkin með mikinn herafla. Í fyrstu virtist allt ganga að óskum en Þjóðverjum tókst ekki að brjóta Sovétríkin á bak aftur. Stærstur hluti Evrópu var á þeirra valdi eða undir áhrifum þeirra fram á seinni hluta árs 1944 en eftir það voru Þjóðverjar alls staðar í vörn.

Mynd:  / 
Myndir úr seinni heimsstyrjöld.

Nokkur stríð og ein heimsstyrjöld

Oft hefur verið deilt um hvaða atburði eigi að miða við þegar rætt er um upphaf seinni heimsstyrjaldar. Í Kína hafði staðið stríð árum saman eftir innrás japanska hersins. Þjóðverjar, Ítalir og Sovétmenn höfðu allir skipt sér af borgarastríðinu á Spáni 1936 til 1939 og Ítalir hernumið Abyssiníu 1935. 

Almennt er þó litið svo á að seinni heimsstyrjöldin hefjist með innrás Þjóðverja í Pólland. Nokkrum dögum síðar höfðu ríki í fjórum heimsálfum svarað með stríðsyfirlýsingu á hendur Þjóðverjum og byrjuðu undirbúning hernaðaraðgerða gegn þeim. Á sama tíma héldu bardagar áfram í Kína. Stríðin tengdust svo 6. desember 1941 þegar japanski flotinn réðist á Perluhöfn á Hawai og hóf þar með stríð við Bandaríkin. Hitler lýsti stríði á hendur Bandaríkjunum skömmu síðar. Eftir þetta voru stríðin í austri og vestri samtvinnuð. Bardögum lauk í Evrópu í maí 1945 með algjörum ósigri Þjóðverja og í Asíu í ágúst sama ár.

epa05128631 A general view on the gate with sign 'Work sets you free', of the former Nazi-German concentration and death camp KL Auschwitz-Birkenau before ceremonies marking the 71st anniversary of the liberation of the former Nazi-German
Útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í Póllandi. Mynd: EPA - PAP
Hlið útrýmingarbúðanna í Auschwitz-Birkenau.

Bardagar seinni heimsstyrjaldar voru háðir í Evrópu, Asíu, Afríku, loftárásir voru gerðar á Eyjaálfu og sjóorrustur á öllum heimshöfum auk árása kafbáta á kaupskip og herskip.

Stríðsins verður þó einna helst minnst fyrir þau miklu grimmdarverk sem beindust að almennum borgurum. Þjóðverjar komu upp útrýmingarbúðum og þrælkunarbúðum þar sem milljónir voru myrtar, ýmist teknar af lífi eða þrælkað til dauða. Dauðasveitir þeirra fóru um Austur-Evrópu og myrtu þjóðfélagshópa sem Þjóðverjar töldu óæskilega.

Herir öxulveldanna og bandamanna gerðu óhikað loftárásir á borgir andstæðinga sinna stríðið á enda sem kostuðu fjölda fólks lífið og sviptu ennþá fleiri húsaskjóli. Milljónir fóru til vinnu í Þýskalandi meðan á stríðinu stóð, ýmist viljugir eða tilneyddir.

Mörg ár tók að leysa gífurlegan flóttamannavandann eftir stríð. Flóttamennirnir, sem þurfti að aðstoða, voru fjölbreyttir. Þeirra á meðal voru fangar í útrýmingar- og þrælkunarbúðum Þjóðverja, stríðsfangar og erlendir verkamenn í Þriðja ríkinu. Einnig Þjóðverjar og bandarmenn þeirra á flótta undan herjum bandamanna. Þá má ekki gleyma að fjöldi fólks þurfti að yfirgefa heimili sín eftir stríð þegar landamæri færðust til og heilu þjóðfélagshóparnir voru reknir úr landi eða landshluta á milli.

Grimmdin var ekki síðri í Asíu þar sem Japanir sýndu undirokuðum þjóðum og hermönnum sem gáfust upp litla miskunn. Bandaríkjamenn stóðu fyrir stórfelldum loftárásum á japanskar borgir sem lauk með því að tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki. 

 

Fréttin hefur verið leiðrétt.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV