Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

8 milljörðum minna í sjúkraþjónustu og hjúkrun

08.06.2019 - 19:52
Mynd úr safni. - Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Ný fjármálaáætlun liggur fyrir á Alþingi. Öryrkjar fá átta milljörðum minna en í fyrri áætlun og framlög til sjúkrahúsþjónustu verða tæpum fimm milljörðum minni. Þingmaður Samfylkingarinnar finnst þetta sérkennileg forgangsröðun. Fjármálaráðherra segir engin áform um niðurskurð í bótakerfum.

Fyrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt tæpri viku áður en WOW air fór í þrot í lok mars. Ljóst var að nokkrar breytingar yrðu á henni eftir það, en þær voru kynntar fjárlaganefnd Alþingis í gær. 

„Þessar tillögur sem eru að breytast við meðferð þingsins sýna mjög sérkennilega forgangsröðun, til dæmis mun niðurskurður til öryrkja vera 10 sinnum hærri heldur en niðurskurður til æðstu stjórnsýslunnar. Þetta er bara vond pólitík,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar. 

Ætlar ekki að skera niður í bótakerfum

Fjárframlög til öryrkja og fatlaðra verða tæpum átta milljörðum lægri en þau hefðu orðið næstu fimm árin. Fjármálaráðherra segir á Facebook að engin áform séu um niðurskurð í bótakerfum. Lögð verði áhersla á að auka skilvirkni, bæta nýtingu á fé og huga að samspili við önnur stuðningskerfi. 

Þá fá nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar um þremur milljörðum minna en áætlað var, en rætt var í stjórnarsáttmálanum að þetta ætti að styrkja. Til samgöngu- og fjarskiptamála fá 2,8 milljörðum minna en var fyrirhugað, en fjármálaráðherra sagði þegar fyrri áætlun var kynnt, að gera ætti sérstakt átak í þeim málaflokki. 

Skólamál, stjórnsýsla og umhverfismál fá minna

Þá verða framlög til sjúkrahúsþjónustu rúmum 4,7 milljörðum minni en í fyrri fjármálaáætlun og til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu rúmum þremur milljörðum minni. 

Rúmum milljarði minna rennur til æðstu stjórnsýslu og framlög til almanna- og réttaröryggis verða tæpum milljarði minni. Til framhaldsskóla  fer rúmlega 1,7 milljörðum minna en fyrirhugað var og til umhverfismála tæplega 1,4 milljörðum minna.

Vill hækka skatta hjá tekjuháum

Ágúst Ólafur segir róttækt að sækja fjármuni með þessum hætti, betra hefði verið að hækka skatta á þá tekjuhærri í stað þess að draga úr framlögum til þessara hópa. „Í fyrsta sinn síðan 2010 er samdráttur, að sjálfsögðu þurfum við að bregðast við því en við gerum það ekki með þessum hætti,“ segir Ágúst Ólafur jafnframt.

Hvar finnst þér þá að það ætti að skera niður? „Ég velti fyrir mér, er raunveruleg ástæða til að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt miðað við hin Norðurlöndin, að fresta lækkun bankaskatts um einungis eitt ár.“ Þannig þér finnst að það ætti að hækka skatta til að mætta þessari niðursveiflu? „Suma skatta en ekki á venjulegt fólk. Það er tækifæri til að afla tekna hjá þeim sem hafa efni á því til að verja skólana, sjúkrahúsið, velferðarkerfið og svo framvegis.“

33,5 milljarðar til vinnumarkaðsmála

Samkvæmt tillögunni á að auka stuðning við fjölskyldur og vinnumarkað, og vegna atvinnuleysis. Gera má ráð fyrir að sé vegna falls WOW air og samdráttar í ferðaþjónustu. Til atvinnuleysis- og vinnumarkaðsmála fara tæpir 33,5 milljarðar á næstu fimm árum og í stuðning við fjölskyldur tæplega 4,9 milljarðar.