Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

8. mars – alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Mynd með færslu
Mótmælaganga kvenna á Filippseyjum, 8. mars. Mynd: EPA
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna hefur verið haldinn hátíðlegur í rúm eitt hundrað ár. Upphaflega sneru kröfur kvenna fyrst og fremst að kosningarétti og samstöðu verkakvenna. Barátta fyrir friði varð meginefni baráttudagsins eftir síðari heimsstyrjöld. Þema alþjóðlegs baráttudags kvenna (International Women´s Day) í ár er „Be bold for change“, sem útleggja mætti sem „Höfum hugrekki til að knýja fram breytingar“.

Baráttudagur fyrir kosningarétti og síðar friði

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur þann 19. mars 1911. Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona og sósíalisti lagði til að halda upp á daginn á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna í Kaupmannahöfn árið 1910. Dagurinn var haldinn hátíðlegur af sósíalískum konum í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki-Ungverjalandi og Sviss. Konur í fleiri Evrópuríkjum bættust í hópinn næstu ár.

Upphaflega voru helstu baráttumálinn kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna. 1914 söfnuðust til að mynda þúsundir kvenna saman í Þýskalandi þann 8. mars til að krefjast kosningaréttar.

Árið 1917 gerðu konur í Pétursborg í Rússneska keisaradæminu verkfall til að krefjast betri kjara og friðar. Þetta er talið marka upphaf febrúarbyltingarinnar (8. mars var 23. Febrúar samkvæmt gregoríanska tímatalinu), sem leiddi til endaloka keisaradæmis í Rússlandi og skammlífrar stjórnar sósíaldemókrata.

1921 samþykkti Alþjóðasamband kommúnista að 8. mars yrði baráttudagur kvenna. Afar misjafnt var hins vegar hvort og hvernig dagsins var minnst, þar til eftir síðari heimsstyrjöld. 1945 var Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna stofnað og ákveðið að 8. mars yrði baráttudagur kvenna fyrir friði.

Á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna, árið 1975, var ákveðið að 8. mars yrði alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna.

8. mars á Íslandi

8. mars var líklega fyrst minnst á Íslandi árið 1932, á fundi Kvennanefndar Kommúnistaflokks Íslands, að því er fram kemur á vef Kvennasögusafnsins. Dagsins var eftir þetta minnst árlega, fyrst af Kommúnistaflokknum og Íslandsdeild ASV - Alþjóðasamhjálpar verkalýðsins, en síðar Kvenfélagi sósíalista. Frá árinu 1953 hafa Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, staðið fyrir fundum 8. mars.

Á fundum MFÍK 8. mars, var baráttan gegn herstöð Bandaríkjahers á Íslandi og veru landsins í NATO lengi vel fyrirferðarmikil. Á sjöunda og áttunda áratugnum var andóf gegn Víetnamstríðinu áberandi. Önnur mál hafa þó einnig verið til umfjöllunar. Þann 8. mars 1978 stóð MFÍK ástamt Rauðsokkahreyfingunni og Kvenfélagi sósíalista fyrir dagskrá með heitinu „Kjör verkakvenna fyrr og nú“. Árið 1984 var efnt til sameiginlegarar dagskrár átta kvennasamtaka þann 8. mars, auk þess sem Kvennalistakonur gengust fyrir mótmælaaðgerðum vegna launamunar kynjanna.

Frá 1984 hefur MFÍK haldið fund ásamt öðrum samtök,um og stéttarfélögum þann 8. mars hvert ár. Efni fundanna hefur til að mynda verið jöfnuður, friðaruppeldi og barátta gegn ofbeldi, stríði og fordómum. Stígamót, samtök gegn kynferðisofbeldi, voru stofnuð 8. mars árið 1990. Opið hús er hjá samtökunum í dag, á afmælisdaginn. Unifem á Íslandi hafa verið með fundi 8. mars.

Fjölbreytt dagskrá ólíkra félagssamtaka 8. mars 2017

Hin síðari ár hafa margir og fjölbreyttir viðburðir verið í tilefni áttunda mars. Svo er einnig í ár.

Fjöldi félaga – einkum samtök kvenna og stéttarfélög – gengst fyrir fundi í Iðnó síðdegis í dag, undir yfirskriftinni „Konur gegn afturför“, þar sem fjallað verður um vaxandi þjóðernisfasisma og bakslag í réttindabaráttu kvenna og minnihlutahópa.

Í hádeginu var haldinn fundur á Grand hótel undir yfirskriftinni „Öll störf eru kvennastörf og forsýning og pallborð um sama efni í Háskólabíó í kvöld.

Í Kauphöllinni var opnunarbjöllum hringt af Þorsteini Víglundssyni, ráðherra jafnréttismálaog  Rakel Sveinsdóttir, stjórnarkonu Félags kvenna í atvinnurekstri. Þá kynnti Rakel verkefni sem heitir Jafnvægisvogin.

Alþjóðanefnd Félags kvenna í atvinnurekstri gekkst einnig fyrir hádegisfundi  í Iðnó undir yfirskriftinni „Já ég þori, get og vil.“ Í Háskólanum á Akureyri var ráðstefna í tilefni dagsins um líðan ungs fólks. Og á Landspítalanum var málþing um stöðu kvenna með endómetríósu í heilbrigðiskerfinu.

Þá er dagskrá á bókasöfnum í tilefni dagsins. Í kvöld er svo dagskrá á kvennaheimilinu Hallveigarstöðum þar sem skáldkonur sem heita Kristín lesa upp úr verkum sínum.