Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

790 milljónir vegna tafa og aukareiknings

09.11.2019 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Ríkið þarf að greiða 790 milljónir króna aukalega vegna nýs Herjólfs samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem var lagt fram á Alþingi í dag. Þar er lagt til að samþykkt verði aukafjárveiting vegna viðbótarkostnaðar við gerð skipsins.

Herjólfur ohf. sem rekur nýju ferjuna fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar fær um það bil þriðjung fjárhæðarinnar, 258 milljónir króna. Það er vegna ófyrirséðs kostnaðar sem hlaust af því að afhendingu Herjólfs seinkaði ítrekað. Kostnaðurinn tengist því meðal annars að félagið varð að reka tvær ferjur á tímabili. Annars vegar gamla Herjólf sem sinnti siglingum milli lands og eyja mun lengur en ráð var fyrir gert, hins vegar nýja Herjólf. Meðan á þjálfun áhafnar og prófunum nýja skipsins stóð þurfti Herjólfur svo að halda áfram siglingum. Rekstrarkostnaður gamla Herjólfs er talsvert meiri en þess nýja.

Meginhluti viðbótarkostnaðarins rennur hins vegar til Crist S.A. skipasmíðastöðvarinnar, samtals 532 milljónir króna. Skipasmíðastöðin og Vegagerðin deildu um lokauppgjör. Pólverjarnir töldu sig eiga rétt á aukagreiðslu vegna breytingar sem gerð var á skipinu til að auka sjófærni. Vegagerðin taldi hins vegar að skipasmíðastöðin hefði heitið því verki án aukagreiðslu.