Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

780 skráðir á útkallslista velferðarþjónustunnar

Mynd með færslu
 Mynd:
Um 780 manns hafa skráð sig á útkallslista velferðarþjónustunnar. Félagsþjónustufulltrúi segir að erfitt geti verið að manna þjónustu við viðkvæma hópa og það sé eitt helsta áhyggjuefnið hjá sveitarfélögunum.

Félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga halda utan um bakvarðasveit velferðarþjónustunnar. Um 780 manns hafa þegar skráð sig á listann, langflestir eða um 560 í Reykjavík.

Vantar sérstaklega í minni sveitarfélögum

María Ingibjörg Kristjánsdóttir, félagsþjónustufulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að sérstaklega vanti fólk á lista í minni sveitarfélögum. Á Vestfjörðum eru tíu á lista, Á Norðurlandi vestra tólf, og á Suðausturlandi sjö. “En það er kannski skiljanlegt því að þar voru ekki smit til að byrja með en nú er alls staðar fólk komið í sóttkví eða smitað“. Hún á því von á að minni sveitarfélög fari að taka við sér og hvetur fólk til að skrá sig, enda hafi einhver sveitarfélög nú þegar leitað í listann. Hún segir hafa fjölgað um 80 manns á listanum síðan í gær.

Mynd með færslu
Hér sést skipting útkallslistans eftir landshlutum. Það er hægt að skrá sig á fleiri en eitt landsvæði.

Sérstaklega er óskað eftir fólki sem getur unnið í búsetukjörnum fyrir fatlaða, hjá öldruðum sem þurfa stuðning við athafnir daglegs lífs og börnum með stuðningsþarfir. María Ingibjörg segir þó líka þörf fyrir fólk með háskólamenntun innan félagsþjónustunnar, til dæmis þroskaþjálfa og félagsráðgjafa. Þar hugsar hún sérstaklega til minni svæða þar sem öll félagþjónusta getur dottið út ef einn veikist. 

Mynd með færslu
Menntun þeirra sem eru á útkallslista

Þjónusta sem ekki getur fallið niður

Hún segir mönnun mikið áhyggjuefni hjá sveitarfélögum enda geti verið erfitt að manna stöður þegar þurfi að fara inn á heimili og aðstoða fólk sem sé í sóttkví eða jafnvel smitað. Þjónustan megi þó ekki falla niður á meðan heimsfaraldur gengur yfir. „Þarna verður að vera fólk til að hjálpa, það er ekkert hægt að hætta þjónustu, þau verða áfram að fá aðstoð við það sem þau geta ekki“.

Staðan viðkvæm á fámennum svæðum

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra þar sem um 24% íbúa eru í sóttkví, segist ekki hafa þurft að sækja í listann. Fólk í þessum störfum sé heilsuhraust, þjónustan hafi verið skorin niður og það vinni að heiman eins og hægt er til að vernda það enn frekar.  Ekki megi þó mikið út af bera. Í gær hafi til dæmis eini starfandi dýralæknirinn á svæðinu farið í sóttkví. Sá vandi hafi verið leystur en sýni vel hvað staðan sé sérstaklega viðkvæm á fámennum svæðum þar sem fáir geti hlaupið í allar stöður.