Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„76% tollur á franskar er Íslandsmet“

07.05.2019 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Guðmundsson - RÚV
Innfluttar franskar kartöflur bera 76% toll. Þessu hefur Félag atvinnurekenda mótmælt. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins, segir að lækka mætti verð á frönskum kartöflum um 20-30% með því að fella tollinn niður. Enginn prósentutollur sé jafn hár hér á landi og tollur á innfluttar franskar karftöflur.

Á föstudag voru tímabundið felldir niður tollar á innfluttar ferskar kartöflur til að mæta skorti á innlendum kartöflum.

„Fyrir tveimur eða þremur árum voru felldir niður tollar á kartöflusnakki. En það er ennþá 76% tollur á innfluttum frönskum kartöflum. Það hefur enginn í raun viljað útskýra af hverju þetta Íslandsmet í tollheimtu fær að standa. Tollar á innfluttum mat eru yfirleitt réttlættir með því að það sé verið að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu. Sú litla framleiðsla hér innanlands á frönskum kartöflum er að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Þannig að þetta er í rauninni þá verndartollur fyrir iðnaðarframleiðslu. Þeir áttu að vera úr sögunni með EFTA-aðildinni upp úr 1970,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Fyrirtæki sem eiga aðild að félaginu höfðuðu mál. Ólafur segir að málsvörn ríkisins hafi verið sú að ekki væri um verndartoll að ræða heldur tekjuöflun. 

Ólafur segir það algengt að tollar á innfluttar búvörur sé um 30%. Að auki bætist við magntollur. Dæmi séu um að tollar séu lagðir á búvörur sem ekki eru framleiddar hér, til að mynda sætar kartöflur, sem bera 30% toll. 

Fyrir tveimur árum var felldur niður 59% tollur á innfluttu kartöflusnakki. Fyrir vikið lækkaði verðið um 20-40%.

En hversu mikið myndu franskar kartöflur lækka í verði ef tollurinn yrði felldur niður?

„Það eru fríverslunarsamningar við Kanada og Evrópusambandið þar sem þessi tollur hefur verið lækkaður í 46%. Þannig að megnið af innflutningnum koma frá þeim ríkjum. Fyrir vikið myndi verðið lækka um 20-30%,“ segir Ólafur.

Þetta gæti verið verðlækkun sem heimilin myndi muna um?

„Alveg klárlega. Endurskoðun á tollastefnu íslenska ríkisins væri einhver mesta kjarabót fyrir íslensk heimili sem völ er á,“ segir Ólafur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV